„Æðislegt, klikkað og stórkostlegt“

20.03.2015 - 21:05
Hér má sjá alla umfjöllun í kvöldfréttum RÚV um sólmyrkvann í morgun. Fólk hópaðist saman víða um land til að fylgjast með sólmyrkvanum og margir notuðu sterk lýsingarorð til að lýsa hrifningu sinni. Hátt í tvö hundruð erlendir sólmyrkvaaðdáendur fylgdust með náttúruundrinu úr lofti.

„Ég er ekkert hissa að forfeðurnir hafi talið að dómsdagur væri runninn upp þegar tungl myrkvar sólu,“ sagði einn þeirra sem fylgdist með sólmyrkvanum í dag. Sum börn óttuðust að sólin bræddi þau en önnur sögðust örugglega muna eftir þessu degi næstu þrjú kannski fjögur árin. 

Þrjár íslenskar þotur flugu með hörðustu sólmyrkvaaðdáendurna í átt að Færeyjum í nær 40 þúsund feta hæð til að sjá almyrkvann sem best. Flugmenn lögðu lykkju á leið sína til að leyfa fólkinu að upplifa annars konar sjónarspil. 

 

Ferðin hófst á Keflavíkurflugvelli í dagrenningu. Um hálf níu hófu þrjár þotur Icelandair sig til flugs, með þéttskipuðum sætaröðum, öðru megin, en um fjörutíu þotur frá Evrópu voru samtímis á sveimi á afar þröngu svæði á vegna sólmyrkvans. Því voru átta flugumferðarstjórar að störfum, en þeir eru venjulega tveir. 

Spennan og hrifningin var mikil, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. 

 

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV