Aðstoða utangarðsmenn af erlendum uppruna

11.11.2016 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Velferðarsvið Reykjavíkur hefur gert samning við Barka, pólsk samtök sem munu aðstoða utangarðsmenn af erlendum uppruna að koma lífi sínu á réttan kjöl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir að verkefnið felist í því að stuðla að betri lífsgæðum þessa hóps, hvort sem í því felst að snúa aftur til heimalandsins eða vera áfram í Reykjavík. Talið er að tæplega 30 utangarðsmenn frá Austur-Evrópu gætu nýtt sér aðstoð Barka í Reykjavík.

Barka-samtökin voru upprunalega stofnuð í Póllandi árið 1989 til að hjálpa fólki í erfiðum félagslegum aðstæðum. Árið 2007 leitaði Lundúnaborg til Barka til að fá aðstoð fyrir heimilislaust fólk af erlendum uppruna sem hélt til á götum borgarinnar. Í tilkynningunni segir að verkefnið hafi gefið góða raun og að samtökin starfi nú í Dyflinni, Kaupmannahöfn, Hamborg, sex borgum í Hollandi og nú í Reykjavík.

Þeir sem leiða starfið meðal utangarðsfólks hafa sjálfir verið í þeirra sporum og hafa búið á götum í hinum ýmsu borgum Evrópu. Með aðstoð frá Barka tóku þeir þátt í verkefninu og náðu tökum á eigin lífi. Þeir launa svo Barka vinnuna með því að gerast sjálfir leiðtogar. Barka-leiðtogar vinna sjálfstætt í hverju landi ásamt háskólamenntuðu aðstoðarfólki.

Auglýsa eftir starfsmanni

Velferðarsvið hefur útvegað starfsmönnum samtakanna aðstöðu í Gistiskýlinu á Lindargötu, auk þess sem sviðið stendur straum af kostnaði við verkefnið, meðal annars launum starfsmanna, ferðakostnaði og stuðningi á vegum Barka í Póllandi fyrir þá sem kjósa að fara til síns heimalands.

Reykjavíkurborg ákvað að fara þessa leið vegna þess að hún hefur skilað árangri í öðrum löndum, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni. Frá 2012 hafa yfir 1.700 einstaklingar í áðurnefndum borgum snúið til síns heimalands og öðlast þar betri lífsgæði með stuðningi Barka. Árið 2015 fengu 1.405 einstaklingar stuðning frá Barka í Hollandi og þar af snéri 451 einstaklingur til síns heima.

Talið er að tæplega 30 utangarðsmenn frá Austur-Evrópu gætu nýtt sér aðstoð Barka í Reykjavík. Barka auglýsir nú eftir starfsmanni í Reykjavík en umsóknarfrestur rennur út 15. nóvember.