„Aðför að rannsóknarháskólanum“

03.04.2017 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands
Rektor Háskóla Íslands segir að fyrirhuguð hækkun á framlögum til háskólastigsins sé of lítil og komi of seint. Ríkisfjármálaáætlun sé ekki í samræmi við það sem rætt var um fyrir kosningar. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að stuðlað verði að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, meðal annars heilbrigðis og menntakerfi. Heilbrigðismálin verði sett í forgang. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti fyrir helgi, er vissulega gert ráð fyrir auknum framlögum til beggja málaflokka næstu árin. Gert er ráð fyrir að framlög til háskólastigsins verði aukin um nærri tvo og hálfan milljarð á ári en Jón Atli Benediktsson, rektor háskóla íslands, segir það samt sem áður vonbrigði: „Inni í þessum kafla fjármálaáætlunar er miklu fleiri þættir, hús íslenskra fræða sem verður fjármagnað á næstu árum, fagháskólastig og Lánasjóður íslenskra námsmanna svo það er erfitt í raun að gera sér grein fyrir hvað fer til háskólanna og sérstaklega Háskóla Íslands. Hækkunin er of lítil til að byrja með og hún kemur of seint en það hefði þurft, miðað við það sem hefur verið rætt, að spýta í strax“. 

Mikil áhrif á starf háskólans

„Ef við horfum fram á veginn til 2018 og síðar þá er niðurskurður framundan, við erum búin að vera í langvarandi niðurskurði eftir hrun og eins og ég sé þetta þá þarf að fækka námsgreinum, námsleiðum og mér finnst þetta líka vera aðför að rannsóknarháskólanum“ segir Jón Atli og bætir við: „Ég vona að þingið muni þá breyta þessu, við eigum eftir að fara í viðræður við ráðuneytið og ráðherrann um þetta mál. En eins og þetta lítur út núna þá er ekki verið að standa við það sem sagt var“.

Óljós hækkun til reksturs sjúkrahúsa

Gert er ráð fyrir að auka framlög til sjúkrahúsþjónustu um sextán milljarða. Inni í því eru framkvæmdir við nýjan landspítala, átak í tækjakaupum og átak til að fjölga starfsfólki og stytta biðlista. Vegna þessara ólíku þátta er ekki einfalt að lesa út úr áætluninni hversu mikið fer í rekstur sjúkrahúsanna og hvort rekstrarféð er aukið eða skorið niður. María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, segir að verið sé að meta áhrifin á rekstur LSH. „Þetta er auðvitað skjal sem er lagt fram sem tillaga og á eftir að fá umfjöllun í þinginu og væntanlega mun velferðarráðuneytið ræða þetta frekar við sínar stofnanir, þar á meðal okkur. Við erum bara að greina þetta núna. Það er mjög jákvætt að sjá hvað er mikill vilji þarna til að bæta heilbrigðiskerfið og það er mjög gott en það er of snemmt núna að meta það hvað þetta þýðir í raun fyrir Landspítalann“.