Á rangri leið í heilbrigðismálum

05.01.2016 - 21:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Það samrýmist ekki kröfum um háskólasjúkrahús eins og Landspítalann að hafa sérfræðinga í hlutastörfum á spítalanum á móti einkarekstri á stofum. Þetta segir landlæknir. Íslendingar hafi verið á rangri leið með heilbrigðiskerfið undanfarna áratugi.

Birgir Jakobsson landlæknir segir að setja eigi heilsugæsluna, þjónustuna úti á landi og málefni háskólasjúkrahússins í forgang. Peningar til heilbrigðiskerfisins hér nýtist ekki nógu vel og að Landspítalinn hafi ekki forsendur til að gegna hlutverki sínu. 

„Sú þróun sem hefur átt sér stað er að sérgreinalæknar hafa í mæli - miklum mæli, of miklum mæli verið í hlutastörfum á háskólasjúkrahúsinu og að hluta á stofu í einkarekstri og þetta finnst mér ekki, þegar til lengdar er litið, samræmast þeim kröfum sem maður gerir á háskólasjúkrahús.“

Birgir segir að vegna þessa hljóti að vera erfiðara að skipuleggja alla þjónustu á spítalanum þar sem sérfræðingar séu ekki aðgengilegir allan tímann. 

„Ég held að það geti í sinni verstu mynd haft afleiðingar að þú ert ekki með réttan competance á réttum stað, á réttum tíma.“

Íslendingar eigi að snúa sér að forgangsverkefnunum, „og ekki bara að deila um hvar háskólasjúkrahúsið eigi að vera.“

Fyrst og fremst verði Íslendingar að hafa háskólasjúkrahús sem standi sig í samkeppni við erlend háskólasjúkrahús.

„Að þessu leyti til höfum við verið á rangri leið, alla vega síðastliðinn áratug og kannski síðastliðna tvo áratugi.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV