Á ekki að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi

20.01.2016 - 14:57
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi.
 Mynd: RÚV
Efnislegur skortur, sem börn á Íslandi lifa við, er alvarlegt vandamál, segir framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Næstum tíunda hvert barn á Íslandi líður skort, samkvæmt nýrri úttekt Barnahjálparinnar, og næstum fimmta hvert barn foreldra í leiguhúsnæði. Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Barnahjálparinnar, segir að Ísland standi mjög vel í alþjóðlegum samanburði, sem sé mjög gott.

„En við eigum samt í rauninni í grunninn ekki að bera okkur saman við aðra en sjálf okkur, og við eigum að leitast við að gera sífellt betur í okkar eigin ranni,“ segir Bergsteinn. Barnahjálpin telji að þetta sé alvarlegt mál. „Við teljum að við séum efnamikið ríki og hér á landi eigi ekki að ríkja skortur.“

Barnahjálpin á Íslandi fékk Hagstofu Íslands til að greina svör úr lífskjararannsókn Evrópusambandsins fyrir árin 2009 og 2014, með nýrri aðferð þar sem einblínt er sérstaklega á aðstæður barnanna, en ekki til dæmis tekjur foreldranna. 17 atriði voru könnuð hjá börnum á aldrinum 1-15 ára, meðal annars á sviði næringar, klæðnaðar, húsnæðis og félagslífs. Aðeins eru til upplýsingar fyrir þessi tvö ár.

Spurður um hvað sé mikilvægast að gera til að takast á við vandann segir Bergsteinn að Barnahjálpin setji þessa greiningu fram sem tæki til að hjálpa við að mæla þróunina. Barnahjálpin vilji gjarnan að slík rannsókn verði gerð á hverju ári, sem er ekki staðan í dag. Á hverju ári þurfi að vera hægt að kafa ofan í gögnin og sjá sérstaklega skort barna. Þannig sé hægt að þróa nákvæm inngrip, bæði almenn og sértæk, til að bregðast við.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV