99 ár síðan konur fengu kosningarétt

19.06.2014 - 08:47
Mynd með færslu
Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, segir jafnrétti kynjanna ekki náð þótt kynin séu nú að mestu jöfn fyrir lögum. 99 ár eru liðin í dag síðan íslenskar konur yfir fertugu fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Steinunn bætir því við að lögin sé hægt að skrifa, lesa og túlka, en vandasamara sé að eiga við þá hugarfarsbreytingu sem þurfti til þess að hætt verði að flokka fólk í hólf og mismuna því eftir kyni og öðrum breytum.

Steinunn var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás2, þar sem hún og Sigríður B. Tómasdóttir, verkefnisstjóri kvennaráðstefnunnar Nordisk Forum á Íslandi ræddu um kvenréttindi í tilefni dagsins. Steinunn sagði enn fremur að  helstu ógnir sem steðjuðu að jafnrétti á Íslandi væru ójöfn tækifæri kynjanna á vinnumarkaði, kynbundið ofbeldi og hatursfull orðræða. Sigríður bætti því við að jafnréttissannfæring feminismans geti gagnast öðrum en konum í nútímanum.

 „Feminismi er gott tæki í baráttunni í dag gegn þjóðernishyggju og fasisma, sem eru orðin býsna áberandi í Evrópu,“ sagði hún, og bætti við að feminismi væri stefna sem styddi við jafnrétti allra.

19. júní 1915 fengu konur og vinnuhjú, 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis, Aldurstakmarkið átti að lækka um eitt ár á hverju ári næstu 15 árin. Fimm árum seinna var þó lögunum breytt og konur fengu full pólitísk réttindi 25 ára.