900 sænskir flugmenn í verkfall

25.02.2016 - 03:32
epa03531021 (FILE) A file photo dated 03 February 2009 showing Scandinavian airline SAS MD-80 and Boeing 737 aircrafts parked at the gates at terminal 4 at Arlanda Airport north of Stockholm, Sweden. Union representatives at troubled Scandinavian carrier
 Mynd: EPA  -  SCANPIX SWEDEN FILE
Félagsmenn í Sænska flugmannafélaginu hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða í kjaradeilu sinni við starfsmannaleiguna Global Employer Company, GEC, sem sex sænsk flugfélög skipta við, þar á meðal SAS. Á miðnætti rann út frestur til að afstýra aðgerðunum, eftir vikulangt yfirvinnubann og árangurslausar samningaviðræður Félagar í Sænska flugmannafélaginu sem vinna hjá GEC lögðu þá þegar niður vinnu, og munu ekki fljúga á fimmtudögum, sunnudögum og mánudögum meðan á aðgerðum stendur.

Auk þess að leggja niður störf þrjá daga í vikunnar munu félagsmenn ekki vinna yfirvinnu, neita öllum aukavöktum og öðru því, sem létt getur undir með flugfélögunum sem skipta við GEC, sem er dótturfyrirtæki breska flugfélagsins Flybe.

Samtök flugrekstraraðila hafa hótað mótaðgerðum, svo sem verkbanni á alla félaga í Sænska flugmannafélaginu, hvar sem þeir starfa, frá og með næsta laugardegi.

Í allt taka um 900 flugmenn þátt í aðgerðunum, sem ná til áætlunarflugfélaganna SAS, Amapola, Braathens Regional og Malmö Aviation, og tveggja stórra leiguflugfélaga; Novair og Tuifly.

Tommy Larsson, sem fer fyrir samninganefnd flugmanna, segist ekki hafa hugmynd um hve margir flugfarþegar komi til með að finna fyrir aðgerðum félagsins, en telur víst að þær auki þrýstinginn á viðsemjendur þess. Reikna megi með miklum truflunum á flugi, bæði seinkunum og aflýsingum.

Maria Sachs, talskona SAS, segir óljóst hvaða áhrif aðgerðirnar hafi á starfsemi flugfélagsins. Þó er ljóst að áhrifanna mun aðallega gæta á flugleiðum SAS milli Stokkhólms og Suður-Svíþjóðar annars vegar, og til áfangastaða í Finnlandi hins vegar.

Enginn allsherjarkjarasamningur er í gildi milli GEC og sænskra flugmanna. Slíkur samningur, sem kveður á um laun, réttindi og skyldur, er helsta krafa stéttarfélagsins, auk þess sem krafa er gerð um reglulega matartíma. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV