900 börn komast ekki að á frístundaheimilum

14.09.2017 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verr gengur að ráða starfsfólk á frístundaheimili og leikskóla á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra. 173 starfsmenn vantar á frístundaheimilin og 78 á leikskólana, þar af 55 leikskólakennara.

Reykjavíkurborg hefur sett á laggirnar tvö aðgerðateymi til þess að bregðast við manneklunni.

Í fjórtán leikskólum vantar 3-6 starfsmenn, á 28 frístundaheimilum vantar 1-4 starfsmenn og á fjórum frístundaheimilum vantar fimm eða fleiri starfsmenn. Sótt hefur verið um pláss fyrir um 4500 börn en 3600 hafa verið fengið fulla vistun. 900 börn hafa því ekki komist að á frístundaheimilunum á þessum vetri. Þetta er tvöfalt lengri biðlisti en á sama tíma í fyrra. Þá vantaði 125 starfsmenn á frístundaheimilin og 70 á leikskólana. Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að börn með sérþarfir og yngstu börnin fái forgang.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, segir að verið sé að reyna að finna lausn á þessu. Góðu fréttirnar séu að börnin með mestu sérþarfirnar séu komin með pláss. „Ég hef trú á því að þetta muni leysast að fullu á næstu vikum. Það tók langt fram í október að ná viðunandi stöðu í fyrra. Við erum að vinna í því að skoða til hvaða frekara aðgerða er hægt að grípa,“ segir Helgi.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir