800.000 Mósúlbúar á vergangi

15.07.2017 - 01:40
In this July 13, 2017 photo, aerial view of a destroyed street on the west side of Mosul, Iraq. Iraq’s U.S.-backed forces succeeded in wresting Mosul from the Islamic State group but at the cost of enormous destruction. The nearly 9-month fight
Stórir hlutar Mósúlborgar eru rústir einar. Það á ekki síst við um ævaforna miðborgina, sem Írakar, Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra létu sprengjunum rigna yfir á síðustu vikum orustunnar um Mósúl.  Mynd: AP
Meira en ein milljón manna hraktist á flótta frá íröksku borginni Mósúl frá því að Íraksher og bandamenn þeirra hófu stórsókn sína gegn vígamönnum Íslamska ríkisins þar í borg í október í fyrra, uns borgin taldist frelsuð úr greipum hryðjuverkasamtakanna og Írakar lýstu yfir sigri á mánudaginn var, þann 10. júlí. Um 200.000 hafa snúið aftur til borgarinnar síðan, en um eða yfir 800.000 eru enn á vergangi, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

Þúsundir óbreyttra borgara létu lífið í loftárásum Íraka og Bandaríkjamanna á Mósúl og þúsundir til viðbótar í bardögum á jörðu niðri. Ekki er vitað hve margir féllu fyrir hendi böðla Íslamska ríkisins frá því að hryðjuverkasveitir samtakanna náðu borginni á sitt vald í júní 2014.

Þótt Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, hafi lýst Mósúl frjálsa á mánudaginn, er ekki hlaupið að því fyrir borgarbúa á vergangi að snúa aftur til síns heima. Stórir hlutar borgarinnar eru rústir einar og margir eiga því engin heimili að snúa aftur til. Þá er nær ógerlegt fyrir almenna borgara að komast inn í gömlu miðborgina, síðasta vígi Íslamska ríkisins í Mósúl, þar sem nú er unnið að því að fjarlægja jarðsprengjur, ryðja götur og hreinsa húsarústir. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV