8 Hollendingar líflátnir í Sýrlandi

01.03.2016 - 03:24
epa05034165 Kashmiri Muslim protesters hold Islamic State (IS) flag, during a protest in downtown area of Srinagar, the summer capital of Indian Kashmir, 20 November 2015. Police fired dozens of tear smoke canisters and rubber bullets to disperse the
Íslamska ríkið á sér áhangendur um allan heim. Þessir eru í Pakistan. Um 200 hollenskir ríkisborgarar eru taldir hafa gengið í raðir Íslamska ríkisins í Sýrlandi og Írak.  Mynd: EPA
Óstaðfestar fregnir herma að 8 hollenskir liðsmenn Íslamska ríkisins hafi verið líflátnir í sýrlensku borginni Ma'dan síðastliðinn föstudag, fyrir tilraun til liðhlaups. Hátt í 70 hollenskir íslamistar til viðbótar eru sagðir í haldi í tveimur fangelsum íslamska ríkisins í Ma'dan og Raqqa. Þetta upplýsa sýrlensk borgarasamtök sem talin eru nokkuð áreiðanleg af sérfræðingum í málefnum Sýrlands og sérhæfa sig í að upplýsa um voðaverk íslamista í Raqqa og nágrenni.

Forsagan mun vera sú að einn hollensku íslamistanna hafði fengið sig fullsaddan af Sýrlandsdvölinni og blóðbaðinu. Hann vildi yfirgefa kalífatið og snúa heim til Hollands, og hvatti nokkra landa sína til að gera slíkt hið sama. Hann var handtekinn skömmu síðar af öryggissveitum íslamska ríkisins ásamt tveimur öðrum. Einn þremenninganna er sagður hafa látist af völdum pyntinga sem hann var beittur við yfirheyrslur.

Haft er eftir ónafngreindum heimildamanni að átök hafi brotist út milli hollenskra félaga fanganna þriggja og meðlima í öryggissveitum Íslamska ríkisins fyrir utan höfuðstöðvar öryggissveitanna, þar sem yfirheyrslurnar fóru fram. Særðust nokkrir í báðum fylkingum. Í framhaldinu var sendur sáttasemjari til að reyna að setja niður deilurnar, en hann var myrtur. Er talið að einhver eða einhverjir úr röðum Hollendinganna hafi framið það ódæði, til að hefna félaga síns sem drepinn var við yfirheyrslurnar.

Litlu síðar voru allir 75 meðlimir hollensku sveitarinnar fangelsaðir, þar sem enginn þeirra vildi kannast við að vita hver hinn seki væri, og nú hafa borist fréttir af því að minnst átta þeirra hafi verið líflátnir, sem fyrr segir.

Hollenska utanríkisráðuneytið segir málið til rannsóknar, en ekki hefur tekist að fá þetta staðfest. Þó hafa borist fréttir af því að þrír Evrópubúar af marokkóskum uppruna hafi verið teknir af lífi á síðustu dögum, en um helmingur hollensku íslamistanna í Sýrlandi á rætur í Marokkó.

Hollenska öryggislögreglan telur að um 200 hollenskir ríkisborgarar, þar af um 50 konur, hafi gengið til liðs við Íslamska ríkið í Sýrlandi og Írak.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV