75 þúsund hafa skrifað undir

15.02.2016 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi þeirra Íslendinga sem skrifað hafa undir í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, náði yfir 75 þúsunda markið á þriðja tímanum í dag og trónir nú í efsta sæti á lista yfir fjölmennustu undirskriftasafnanir Íslendinga í sögu lýðveldisins sem beinist gegn íslenskum stjórnvöldum.

Undirskriftasöfnunin hefur jafnvel skákað undirskriftasöfnun gegn hryðjuverkalögum Bretlands, þar sem um 75 þúsund Íslendingar skrifuðu undir, og flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri. 

Undirskriftalisti vegna beitingar Breta á hryðjuverkalöggjöf gegn Íslendingum er fjölmennasti undirskriftalistinn samkvæmt Wikipedia sem Íslendingar hafa staðið fyrir en á hann rituðu einnig erlendir ríkisborgarar nafn sitt.

Í undirskriftasöfnuninni sem Kári stendur fyrir, er þess krafist að ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið í rekstur heilbrigðiskerfisins. 

Á vefsíðunni þar sem undirskriftunum er safnað kemur fram að þeir sem taki þátt skuli vera orðnir 18 ára. IP-tölur séu skráðar svo unnt sé að koma í veg fyrir misnotkun. Öllum persónuupplýsingum sé síðan eytt innan þriggja mánaða. 

Athugasemd ritstjóra: Fréttastofu er ekki kunnugt um nákvæman fjölda þeirra Íslendinga sem rituðu undir undirskriftasöfnun Indefence og beint var gegn breskum stjórnvöldum. Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar er fjölmennasta undirskriftasöfnun í sögu Íslands sem beinist gegn íslenskum stjórnvöldum.