67 ný ferðaþjónustufyrirtæki á 6 mánuðum

15.02.2016 - 19:32
Erlendir ferðamenn við Gullfoss.
 Mynd: Kári Jónasson  -  RÚV
Sextíu og sjö ferðaskrifstofur eða ferðaskipuleggjendur fengu leyfi til að hefja starfsemi síðustu sex mánuði. Ferðamönnum sem komu til landsins í fyrra fjölgaði um þriðjung frá árinu áður.

Það er ekkert lát á fjölgun ferðamanna sem koma til landsins. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fjölgaði ferðamönnum í öllum mánuðum í fyrra miðað við árið á undan.

Í fyrra komu nærri 1,3 milljónir ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll, um aðra flugvelli eða með Norrænu. Árið 2014 komu tæplega milljón ferðamenn. Það er ríflega 29 prósenta aukning milli ára. Mest var fjölgunin í október, um 49 prósent. 

Þar fyrir utan komu 100 þúsund til landsins með 108 skemmtiferðaskipum sem lögðu að bryggju í Reykjavík. 
Bretar og Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir þeirra sem sækja landið heim. Því næst koma Þjóðverjar og Frakkar. 

Þessari miklu fjölgun fylgja stóraukin umsvif í ferðaþjónustu og fyrirtækjum sem bjóða upp á afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn fjölgar hratt. Ferðamálastofa gefur út leyfi til ferðaskipuleggjenda, sem mega skipuleggja dagsferðir, og til ferðaskrifstofa sem mega skipuleggja lengri ferðir og gistingu. Síðustu sex mánuði hefur stofnunin gefið út 67 ný leyfi.

Það eru 50 nýir ferðaskipuleggjendur og 17 nýjar ferðaskrifstofur á þessum tíma. Það jafngildir því að nýtt ferðaþjónustufyrirtæki hefji starfsemi þriðja hvern dag. Samkvæmt gagnagrunni Ferðamálastofu bjóða nú 140 ferðasalar hestaferðir, 56 selja sjóstangveiðiferðir og 153 selja jeppa- og jöklaferðir, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd. 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV