60 ár — Halldór Laxness og bókmenntaverðlaun Nóbels

„Þakka þú mér eigi fyrir þessi ljóð, það varst þú, sem gafst mér þau öll saman áður.“

Sextíu ár eru liðin frá því að Sænska akademían tilkynnti að Halldór Laxness hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir litríkan skáldskap sem endurnýjað hefði íslenska frásagnarlist. Verðlaunin eru þau virtustu sem rithöfundi getur hlotnast og er Halldór eini Íslendingurinn sem fengið hefur þau til þessa.

Halldór var í Svíþjóð þegar tilkynningin barst, 27. október 1955. Nokkrum dögum síðar steig hann um borð í Gullfoss og hélt heim á leið. Þegar skipið sigldi að landi, 4. nóvember, mætti Nóbelsverðlaunahafanum tilvonandi mikilfengleg sýn. Hafnarbakkinn var sneisafullur af fólki. Þúsundir Íslendinga voru komin til að hylla skáldið.

„Kæru landar! Ég þakka hinum mörgu, sem hafa sýnt mér vinarhug bæði með nærveru sinni hér og annan hátt þessa síðustu daga. Ég þakka Bandalagi íslenzkra listamanna, félögum mínum og sambræðrum í listinni fyrir að hafa tekið þátt í þessari móttökuathöfn. Ég þakka vinum mínum, Jóni Leifs, tónskáldið, fyrir hin hlýju orð hans í minn garð hér. Alveg sérstaklega þakka ég íslenzku alþýðusamtökunum fyrir að heiðra mig hér á þessum morgni.

Ég þakka forseta þess fyrir þau orð, sem hann hefur látið falla hér í minn garð. Og vil ég um leið og ég þakka alþýðu Íslands – enn einu sinni fara með ofurlitla tilvitnun, sem ég hef stundum haft tækifæri til að fara með áður, um skáld, sem hefur sent ástmey sinni ljóð – ljóðasyrpu – þegar hún þakkaði honum fyrir þau, segir hann þessi orð í ljóðum: „Þakka þú mér eigi fyrir þessi ljóð, það varst þú, sem gafst mér þau öll saman áður.

Þessi staðreynd haggast ekki þó óvænt sæmd hafi borist mér að höndum frá merkri erlendri stofnun, og vil ég þakka þjóð minni, – þakka íslenzkri alþýðu hér á þessum vonglaða haustmorgni, og ég vil biðja henni velfarnaðar um ókomnar tíðir

Verðlaunaveitingin vakti gríðarmikla athygli. Innlendir og erlendir miðlar fjölluðu um hana, skáldskap Laxness og birtu við hann viðtöl. 

Það voru því erilsamir dagar hjá skáldinu, þar til tími var kominn til að snúa aftur til Svíþjóðar til að veita verðlaununum viðtöku.

Nafn Halldórs hafði verið nefnt í sambandi við verðlaunin í mörg ár áður og það virtist því ekki koma mjög á óvart að hann skyldi fá þau árið 1955.

Bandaríska blaðið The New York Times greindi frá því á forsíðu að Halldór hefði fengið Nóbelsverðlaunin en að hann væri ekki almennt þekktur þar í landi en hins vegar hefði Sjálfstætt fólk orðið metsölubók ársins er hún kom út í Bandaríkjunum í enskri þýðingu árið 1946.

Staffan Björck, prófessor í bókmenntasögu við háskólann í Lundi skrifaði í sænska dagblaðiðDagens Nyheter: „Í dag hljómar loksins Íslandsklukkan yfir bókmenntaheiminum, eða er þessi mynd of þröng? Standa ekki verk Laxness sem klukkuturn í hvers manns tíma og landi? Þar þrumar stórklukkan um örlög manna og kynslóða í blóði, neyð og draumi. Þar gellur ádeilan hvössum beiskum hljómi. Þar kliða bjöllur gáskafullrar glettni, en ofar öllum hinum röddunum svífur söngur fugla.“

Bókmenntagagnrýnandi Morgon-Tidningen, Erwin Leiser, sagði í grein um Halldór:  „Val Sænsku akademíunnar kom ekki á óvart. Það er ástæða til að fagna því að Nóbelsverðlaun ársins falla í skaut magnþrungnum og frumlegum höfundi, sem hefur ekki þurrausið brunn sinn, hlédrægum söngvara og safaríku sagnaskáldi sem enn er í miðju fjölbreyttu og frjósömu starfi.“

Jakob Benediktsson, ritstjóri Orðabókar Háskóla Íslands sagði af þessu tilefni: „Nóbelsverðlaun Halldórs Kiljans bera því órækt vitni, sem margir hafa löngu vitað, að hann er í hópi mestu rithöfunda sem nú eru á dögum. Íslendingar sem lengi hafa talið hann fremstan nútímahöfunda sinna hafa því síst skipað honum of háan sess. Nóbelsverðlaun eru einn mesti heiður sem rithöfundi fellur í skaut, og sá einstæði atburður að Íslendingur hlýtur þau varpar þeim ljóma yfir íslenzkar bókmenntir sem seint verður Halldóri Kiljan að fullu goldinn.“

Skáldin Gunnar Gunnarsson og Tómas Guðmundsson fögnuðu því að Halldór hlyti verðlaunin — og þótti þeim greinilega biðin eftir því að Íslendingur hlyti þau fulllöng. Gunnar, sem einnig var orðaður við verðlaunin, sagði: „Það var áreiðanlega tími til kominn að Ísland yrði þessara heiðursverðlauna aðnjótandi, fyrir bókmenntir fornar og nýjar.“ Og Tómas: „Það eru rösk þrjátíu ár síðan ég spáði því, að Halldór Kiljan Laxness mundi fá Nóbelsverðlaunin. Reyndar vissi ég ekki þá, hvað sænsku Akademíunni er stundum ósýnt um að hugsa, en allt að einu hljóta Íslendingar að fagna af alhug þeim sóma, sem þessum öndvegishöfundi þeirra hefur loks hlotnazt.“

The New York Herald Tribune rifjaði sömuleiðis upp fyrri ummæli og sagði t.d. í frétt um Nóbelsverðlaunin að í júlí 1946 hefði gagnrýnandi blaðsins sagt um Sjálfstætt fólk að þetta væri „eftirminnileg skáldsaga“ sem „dag einn gæti fært Íslandi fyrstu Nóbelsverðlaunin.“

„Hvað mig snertir þá kom þessi veiting mér sérstaklega á óvart,“ sagði Halldór þó í viðtali við Jón Magnússon, fréttastjóra RÚV, skömmu eftir tilkynninguna. „Bæði ég sjálfur og ýmsir raunsæir menn höfðu talið mér trú um að hlutirnir lægju ekki þannig að ég væri líklegur til að fá þessi verðlaun í raun og veru.“

Hlusta má á viðtalið hér:

Í STOKKHÓLMI — „Þetta var ævintýralegt“

Í byrjun desember hélt Halldór aftur til Svíþjóðar ásamt eiginkonu sinni, Auði Laxness, til að veita verðlaununum viðtöku. Þau hjónin komu til Stokkhólms 9. desember en verðlaunin voru afhent daginn eftir. Fjölmargir Íslendingar, þar á meðal nánir vinir Halldórs, voru viðstaddir.

Í fléttuþættinum Sex dagar í desember, sem fluttur var í Ríkisútvarpinu árið 1994, lýstu nokkrir gestanna aðdraganda hátíðarinnar. Hér gefur að heyra raddir Auðar Laxness, Peters Hallberg, bókmenntafræðings og þýðanda, og Erlends Lárussonar og Hauks Tómassonar, sem þá voru við nám í Svíþjóð. Ennfremur er lesið úr bréfi sem Ragnar Jónsson, útgefandi Halldórs, skrifaði frá Stokkhólmi um þessa viðburðaríku daga.

 

AFHENDINGIN — „Endurnýjaði stórbrotna íslenska frásagnarlist“

Afhending Nóbelsverðlaunanna fór fram við hátíðlega athöfn í Konserthúsinu í Stokkhólmi. Dagskránni var útvarpað beint í Ríkisútvarpinu. Árni Gunnarsson, fréttaritari Útvarpsins í Svíþjóð, var kynnir. Hann lýsti aðstæðum og kynnti Nóbelsverðlaunahafana. 

Elias Wessén, félagi Sænsku akademíunnar, flutti ávarp á sænsku um Halldór og verk hans, en hann ávarpaði skáldið einnig á íslensku áður en Gústaf Adolf VI. Svíakonungur afhenti verðlaunin.

„Sú var tíð, að margir íslenskir rithöfundar völdu sér annað norrænt mál en íslensku til að rita bækur sínar á, og ollu þar ekki einvörðungu fjárhagsástæður, heldur einnig það að þeir vantreystu íslenskri tungu sem tæki til listrænnar sköpunar. Mikilvægasta afrek Laxness er ef til vill að hann hefur endurnýjað íslenska tungu til listrænnar túlkunar í óbundnu máli og með fordæmi sínu gefið íslenskum rithöfundum djörfung til að beita móðurmáli sínu.“

Sama kvöld var hátíðarkvöldverður haldinn í Ráðhúsi Stokkhólmsborgar. Þar flutti Halldór ræðu og var með hugann við eyju í norðri.

„Í sömu andránni verður mér hugsað til þeirrar fjölskyldu, eitthvað kringum 150 þúsund manna stórrar, hinnar bókelsku þjóðar Íslands, sem hefur haft á mér vakandi auga frá því ég fór fyrst að standa í fæturna sem rithöfundur, gagnrýnt mig eða talið í mig kjark á víxl, en aldrei skellt við mér skollaeyrum eins og henni stæði á sama, heldur tekið undir við mig eins og bergmál eða eins og viðkvæmt hljóðfæri svarar áslætti. Það er skáldi mikið hamingjulán að vera borin og barnfæddur í landi, þar sem þjóðin hefur verið gegnsýrð af anda skáldskapar um aldaraðir og ræður fyrir miklum bókmenntaauði frá fornu fari.“

 Hér gefur að líta brot úr uppkasti Halldórs að ávarpinu:

Bunustokksmennirnir í Sundsvall

Þegar Halldór Laxness var staddur í Stokkhólmi í desember árið 1955 til að taka á móti verðlaununum barst honum mikill fjöldi heillaóskaskeyta, sem von var. Þegar hann var spurður að því í fréttaviðtali hjá RÚV 1969, hver væri mesta viðurkenning sem rithöfundi gæti veist, sagði hann að hamingjuóskir sem hann hafði fengið frá bunustokksmönnum í Sundsvall hafi verið honum sérstaklega hjartfólgnar.

Halldór hafði áður lýst því í greininni „Endurminníngar frá Svíþjóð“ sem birt var í Upphafi mannúðarstefnu, að meðan hann hafði fataskipti fyrir veislu eitt af þessum hátíðakvöldum í Stokkhólmi, hlustaði hann á aðstoðarmann sinn lesa skeytin upphátt.

„Alskonar burðarstoðir menta og menníngar í mynd stofnana og félaga voru komnar á stúfana, háttaktaðir höfðíngsmenn og algerir nafnleysíngjar sendu kveðjur, og þá má ekki heldur gleyma þeim vinafjölda, vinum vina og lauslegum kunníngjum sem farandmaður hlýtur að safna sér í mörgum löndum á laungum tíma,“ skrifaði Halldór.

 „Það var hjartanlega „lycka til“ frá félagi bunustokksmanna í Sundsvall, – þeirra manna sem grafa lokræsi,“ sagði Halldór og hélt áfram: „Það var ánægjulegt að finna þá sem ráða borgarabrag í heiminum vera sér í vinarhúsi, fræga starfsbræður og meistara, þjóðlegar og alþjóðlegar menníngarstofnanir, og þá ekki síður konúngshúsið og bánkana. En hvað örvar hjartað einsog vita sig orsök í því að menn sem standa í keing yfir bunustokkum djúpt í jörð að reyna að fá vatnið til að renna í gegn, rétta altíeinu úr sér og stíga uppúr skurðinum í miðri ónennu skammdegisins í Sundsvall til að æpa húrra fyrir bókmentum? Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef ég gæti gert nokkrum manni sóma með auðmjúkri þakkarviðurkenníngu til bráðabirgða þetta veislukvöld, þá væru það einmitt þessir menn. Og aðeins eitt símskeyti var sent: Til bunustokksfélagsins í Sundsvall.“ 


Heimildir:

gljufrasteinn.is
Halldór Laxness — ævisaga, Halldór Guðmundsson: JPV, 2004 (einkum bls. 597-610).
Ljósmyndir: Landsbókasafn.