530 tónlistarskólakennarar í verkfalli

22.10.2014 - 12:14
Mynd með færslu
Verkfall Félags tónlistarkennara hófst á miðnætti. Um 530 félagsmenn í um 80 tónlistarskólum um land allt lögðu niður störf í morgun. Ekki liggur þó öll tónlistarkennsla niðri, þar sem tónlistarkennarar sem eru í Félagi íslenskra hljómlistamanna, FÍH, eru ekki í verkfalli.

Tónlistarkennarar hafa verið samningslausir frá 31. mars. Samingafundir félagsins við samninganefnd sveitarfélaga hafa engan árangur borið. Ríkissáttasemjari segir að ekki hafi verið boðað til annars fundar, eftir að upp úr viðræðunum slitnaði í gær. Kröfur tónlistarkennara eru að fá laun sambærileg launum grunnskóla- og leikskólakennara.

 

Sveigjanleiki verði aukinn

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík segist hafa skilning á kröfum tónlistarkennara og þykir miður að samningar hafi ekki náðst áður en boðað verkfall skall á. 

„Lykillinn að kjarabótum fyrir kennara í nýliðnum samningum, voru að jafnframt voru gerðar ákveðnar breytingar á kjarasamningum sjáfum til að auka sveigjanleika í skólastarfinu. Og ég held að það sé verkefnið við samningaborðið. (...) Ég hef áhyggjur af stöðunni og get hvorki sagt að ég sé bjartsýnn eða svartsýnn. Ég hef bara áhyggjur af því að ef ekki náðist saman í gær, hvað taki þá við núna þegar skollið er á verkfall.“