50.000 vísað frá Austurríki á næstu 3 árum

epaselect epa05118586 Refugees and migrants enter a temporary camp after they crossed the Slovenian-Austrian border, near the village of Spielfeld, Austria, 22 January 2016. Austria unveiled a plan 20 January to cap the number of new asylum seekers it
Flóttafólk á leið til Austurríkis um landamærin við Slóveníu.  Mynd: EPA
Um 50.000 hælisleitendum verður að líkindum vísað frá Austurríki á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í áætlun austurrísku ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum og reglum um málefni flóttafólks og innflytjenda. Áætlunin, sem unnin er í innanríkisráðuneytinu, felur meðal annars í sér að hækka farareyri þeirra sem samþykkja að fara úr landi innan þriggja mánaða frá hælisumsókn - eða tafarlaust eftir synjun slíkrar umsóknar - úr 370 evrum í 500.

Þá verður þeim löndum sem teljast örugg fjölgað, líkt og gert var í Þýskalandi. Marokkó, Alsír, Túnis, Gana, Georgía og Mongólía bætast á lista öruggra landa, sem þýðir að nánast útilokað verður fyrir fólk þaðan að fá stöðu flóttamanns í Austurríki og umsóknir þeirra verða afgreiddar með hraði, innan 10 daga frá því að þær eru lagðar fram. Leigðar verða flugvélar til að flytja fólk til síns heima, rétt eins og gera á í Svíþjóð, auk þess sem Herkúles-þotur flughersins verða nýttar til þeirra verka.

Þá á einnig að fækka mjög þeim hælisleitendum sem hleypt verður inn í landið árlega. 2015 komu um 90.000 hælisleitendur til Austurríkis. Stefnt er að því að þeir verði að hámarki 37.500 á þessu ári. 

Mjög er nú þrengt að flóttafólki og hælisleitendum í mörgum löndum Evrópu, einnig þeim sem til skamms tíma voru rausnarlegust og opnust gagnvart þeim, svo sem Svíþjóð og Þýskalandi. Á sama tíma herðir á flóttamannastraumnum, ekki síst vegna óttans við að Evrópa sé að skella í lás.