5 fórust í bílsprengju í Tyrklandi

14.01.2016 - 03:23
epa05100400 People hold candles and pray for victims who were killed in an explosion at the near by Sultanahmet, home to the Hagia Sophia museum and the Blue Mosque, in Istanbul, Turkey, 13 January 2016. Germany's Foreign Ministry confirmed all 10
Fórnarlamba sjálfsmorðssprengjuárásarinnar í Istanbúl á þriðjudag minnst. Maðurinn sem sprengdi sig í loft upp þar er sagður tilheyra Íslamska ríkinu. Rúmum sólarhring síðar var ráðist til atlögu í Cinar.  Mynd: EPA
Fimm fórust og hátt í 40 særðust þegar bílsprengja var sprengd við inngang lögreglustöðvar í Cinar-sýslu í Diyarbakir-héraði í Suðaustur-Tyrklandi í gærkvöldi. Kona og barn munu vera á meðal hinna látnu. Sjónarvottar herma að bílsprengjunni hafi verið fylgt eftir með flugskeytaárás og skothríð að lögreglustöðinni, sem skemmdist mikið. Björgunarlið leitar í rústunum.

Aðliggjandi hús, þar sem lögreglumenn og fjölskyldur þeirra búa, urðu einnig fyrir skothríð og mun nokkur fjöldi kvenna og barna vera á meðal hinna særðu. Enginn hefur lýst ábyrgð á tilræðinu á hendur sér, en tyrknesk stjórnvöld fullyrða að PKK, vopnaður armur Kúrdíska verkamannaflokksins, hafi verið að verki.

PKK og tyrkneski stjórnarherinn hafa átt í blóðugum átökum í Diyarbakir-héraði á undanförnum mánuðum, eftir að vopnahlé þeirra í milli varð að engu í júlí á síðasta ári. Tyrkir, sem taka þátt í lofthernaði Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á hendur Íslamska ríkinu í Sýrlandi og Írak, hafa verið sakaðir um að beina árásum sínum að miklu leyti að Kúrdum, þrátt fyrir að Kúrdar hafi einnig verið virkir þátttakendur í stríðinu gegn Íslamska ríkinu.