45 þurftu að yfirgefa hús sín á Patreksfirði

13.03.2016 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd: ruv.is  -  Patreksfjörður
Rýma þurfti 21 hús á Patreksfirði í kvöld vegna hættu á krapaflóðum. 45 íbúar þurftu að yfirgefa hús sín og eru nú 31 í fjöldahjálpastöð á Fosshótel. Jónas Sigurðsson, yfirvarðstjóri lögreglunnar á Patreksfirði, segir þetta nokkuð umfangsmikla rýmingu en ekki sé vitað hversu lengi hún standi - það verði þó allavega til fyrramáls.

Veðurstofan lýsti yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu á Patreksfirði í kvöld. Talið er að vatn sé farið að safnast fyrir í snjónum í Geirseyrargili, ofan byggðarinnar á Patreksfirði og að krapi gæti hlaupið fram.

Helga Gísladóttir, formaður Barðastrandadeildar Rauða krossins, segir að það væsi ekkert um fólkið í fjöldahjálpastöðinni - þarna séu nokkur börn sem þyki þetta bara sport. „Þetta hefur gengið mjög vel og það er búið að rýma 21 hús á svæði 10, 11 og 12,“ segir Helga. 

Hún segir að framhaldið verði skoðað þegar allir séu komnir í hús. „Það eru allir vel haldnir og það er tekið vel á móti þeim,“ en þrír sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum taka á móti fólkinu.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segist ekki gera ráð fyrir því að það hvessi ekkert meira úr þessu. „Það verður hins vegar núna nokkuð óbreytt eitthvað framyfir miðnætti áður en það fer að lægja. Þá fyrst sunnatil á landinu og seinna  í nótt fyrir norðan.“