39 illa merktar dauðagildrur

26.02.2016 - 19:07
Draga mætti mjög úr hættu við einbreiðar brýr á Þjóðvegi 1 með bættum merkingum. Varaformaður FÍB segir að merki sem varar við einbreiðum brúm geti verið illskiljanlegt erlendum ferðamönnum. Hann vill aðþjóðleg merki, lækka hraðatakmörk við einbreiðar brýr og að þar hafi önnur aksturstefnan forgang.

Við nálgumst einbreiða brú yfir Hólá í Öræfum. Á þessari brú lést erlendur ferðamaður og fimm slösuðust í hörðum árekstri í desember. Vel á annað hundrað einbreiðar brýr eru í vegakerfinu en af þeim eru 39 á Þjóðvegi eitt. Næstum allar þeirra eru á Suðausturlandi, á leiðinni frá Kirkjubæjarklaustri til Egilsstaða, og svo tvær á Norðurlandi. Fram hefur komið að það kosti rúma 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á Þjóðvegi 1 en ýmislegt mætti gera áður en sá draumur rætist.

Séríslenskt merki

Ólafur Guðmundsson er vafaformaður FÍB og tæknistjóri Euro-Rap á Íslandi sem skráir öryggi á vegum og hefur margt við merkingar að athuga. „Það er akkúrat vandamálið að við erum með séríslensk merki eins og þetta merki, einbreið brú, og það er ekki á ensku eða neitt og það er ekki viðurkennt merki. Síðan notum við upphrópunarmerkið í staðinn fyrir að nota merkið vegur þrengist sem er mikið nær að nota vegna þess að það segir mönnum þá að vegurinn er að mjókka og hann er að hverfa fyrir framan þá. Þannig að við erum að nota merki sem er ekki nógu skýrt sem greinilega útlendingar skilja ekki,“ segir Ólafur.

Önnur akstursstefnan hafi forgang

Ganga mætti lengra og setja upp forgangsmerki við einbreiðar brýr. „Það hefur verið gert erlendis í mörg ár, það er að segja bara að ákveða forganginn. Vera ekki að láta ökumanninn taka þessa ákvörðun heldur vera bara búinn að ákveða forganginn með þessu merki.“

Merkingar vantar

Ólafur bendir á að merkingar við brýrnar eigi að taka mið af umferðarþunga og að við sumar vanti hluta af merkingum oftast tvo platta sitt hvorum megin við veginn með svörtum og gulum rækum. Og víða á Suðausturlandi þar sem umferðin er komin yfir 500 bíla á dag ætti samkvæmt handbók Vegagerðarinnar að auka merkingar enn frekar; hafa tvö sett af slíkum plöttum og einnig fleiri skilti. 

Lækka hraða niður í 70 km/klst

Þá mætti kom í veg fyrir alvarleg slys með því að lækka hraða við einbreiðar brýr í 70 km á klukkustund. „Það að hleypa mönnum á 90 kílómetra hraða, beint á móti hvor öðrum í aðstæðum þar sem ekki er hægt að mætast er bara glapræði. Og það er ástæðan fyrir því að þessi slys verða svona miklu verri en ella ef slíkt óhapp á sér stað.“

Ný tegund af vegfarendum

Hann segir að Íslendingar séu orðnir vanir merkingunum og hvernig eigi að haga sér á einbreiðum brúm en það gildi ekki um alla.  „Nú erum við bara komin með nýjan hóp vegfarenda sem eru erlendir ferðamenn á eigin vegum á öllum árstímum.  Umferðin hefur aukist hún er ennþá að aukast. Við eigum að taka af skarið og gera þetta. Það á ekkert að þurfa að ræða þetta og það er ekki dýrt að fara í þessa framkvæmd. Þó svo að best væri náttúrulega að losna við allar þessar brýr en það er lengra tíma mál,“ segir Ólafur.