300 milljónir í norðurljósarannsóknir

30.03.2014 - 13:41
Mynd með færslu
Kínverjar borga 300 milljónir svo hægt verði að stækka norðurljósarannsóknarstöð á Kárhóli í Reykjadal og opna þar gestastofu árið 2016. Húsið verður hins vegar í eigu heimamanna.

Nú þegar er búið að koma upp tækjum vegna norðurljósarannsókna kínversku heimskautastofnunarinnar á Kárhóli en frekari framkvæmdir eru í vændum. Eftir tvö ár stendur til að opna 600 fermetra hús, bæði gestastofu sem verður opin ferðamönnum og rannsóknarstöð.

Framkvæmdakostnaður er áætlaður 300 milljónir króna. Jörðin og öll mannvirki á henni, bæði þau sem eru fyrir og þau sem eiga eftir að rísa, eru í eigu sjálfseignarstofnunar félaga úr héraði, Aurora Observatory. Samkvæmt samstarfssamningi munu þá heimamenn sjá um rekstur og þjónustu við starfsemina en kostnaður vegna fjárfestinga er greiddur af Kínverjum.

Með stækkuninni gefst kostur á að gera enn frekari rannsóknir. „Þá er verið að tala um vistfræði og loftlagsrannsóknir til dæmis,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðstjóri Rannsóknarmiðtöðvar Íslands. „Bæði með þær rannsóknir og norðurljósarannsóknirnar verður haft samstarf við vísindamenn frá öðrum löndum. Það er mikill áhugi hjá stofnunum hér heima, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofunni og Háskólanum á Akureyri og fleirum að starfa þarna í miðstöðinni. Íslenskir vísindamenn frá aðgang að öllum gögnum sem þarna verður safnað.“