30 milljarðar í sjúkrakostnað í fyrra

14.09.2013 - 18:07
Mynd með færslu
Tuttugu prósent af heildarkostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins í fyrra kom úr vasa sjúklinga. Hlutfallið hefur hækkað mikið síðustu áratugi. Sérfræðingur í heilbrigðismálum segir að ljóst sé að efnahagur sjúklinga muni að óbreyttu ráða æ meiru um sjúkdómsmeðferð.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála á síðasta ári voru um 153 milljarðar króna. Hlutur heimilanna í heilbrigðisútgjöldum var 20 prósent af þeim kostnaði, eða 30 milljarðar. Greiðsluþátttaka sjúklinga er mun meiri hér á landi en í nágrannalöndunum og hefur tvöfaldast á síðustu 30 árum. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Ingimars Einarssonar, ráðgjafa í heilbrigðismálum, sem unnin var að beiðni Krabbameinsfélagsins. Hann segir stjórnvöld, stjórnendur og fagfólk þurfa að ráðast í heildarendurskipulagningu á heilbrigðiskerfinu til að forða því frá hruni.

Ingimar segir íslenska heilbrigðiskerfið að hruni komið: „Heilt kerfi sem hrynur. Og það er dýrt að byggja upp frá grunni aftur. Eins og við sjáum núna þá eru átök og stríð á milli aðila og allur trúverðugleiki virðist vera horfinn. Það er lífsspursmál fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu að endurheimta sinn trúverðugleika".

Tuttugu prósenta greiðsluhlutfall sé afar hátt hjá þjóð sem vilji kenna sig við velferð.  Það hafi verið viðmið áður fyrr að þegar farið var að nálgast þessa tölu hafi rauð ljós verið farin að blikka. Ekki bendi til annars en að þessi þróun haldi áfram nema að gerðar verði stærri og meiriháttar breytingar.

En hvað þýðir þetta fyrir fólk sem veikist? Guðný Ósk Þórsdóttir og unnusti hennar, Jón Þór Guðbjörnsson, hafa þurft að greiða 830 þúsund krónur í beinan sjúkrakostnað síðan Jón greindist með krabbamein í október. En þá er allur óbeini kostnaðurinn ótalinn. 

„Þá myndi ég áætla að þetta væru að verða tvær milljónir með öllu. Við reiknuðum náttúrulega ferðakostnaðar miðað við það sem tryggingastofnun gefur upp, og ég þarf að fara fram og til baka með börnin af því að hann er veikur. Kostnaður af því að hafa þau í pössun var náttúrulega bara 80 þúsund kall á mánuði og auðvitað enginn afsláttur af því", segir Guðný.

Í skýrslu Ingimars kemur fram að fjöldi þeirra sem fresta því að leita læknis vegna kostnaðar hefur fjölgað um 50 prósent síðan 2006. Hann segir þetta mjög alvarlegt og það sé ákveðin þumalputtaregla að sjúklingagjöldin eru orðin of há þegar fólk hætti að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.