26 Kínverjar hér í leiðsögumannanámi

15.03.2016 - 16:04
Fjöldi kínverskra ferðamanna hefur tæplega tífaldast frá 2010. Þá komu hingað rétt rúmlega 5 þúsund Kínverjar en í fyrra voru þeir tæplega 48 þúsund. Í vetur hafa 26 Kínverjar setið á skólabekk og stundað leiðsögumannanám. Kennslan fer fram á kínversku. Ef fer fram sem horfir er ekki ólíklegt að Kínverjar verði þriðja fjölmennasta þjóðin sem hingað kemur árlega.

Kínverjar eru á faraldsfæti og við Íslendingar verðum varir við það. Það virðist ekkert lát vera á fjölgun kínverskra ferðamanna. Í síðast mánuði komu hingað tæplega 4500 kínverskir ferðamenn. Miðað við sama mánuð í fyrra fjölgaði þeim um  vel yfir 100 % og voru þar með komnir í þriðja sæti það sem af er ári yfir þjóðir sem hingað koma. Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru fjölmennastir á síðasta ári.  Fjöldi þeirra um 240 þúsund og hafði fimmfaldast frá 2010. Fjöldi Breta, sem var svipaður og Bandaríkjamanna fjórfaldaðist hins vegar frá sama tíma. Kínverjar voru sjöunda fjölmennasta þjóðin sem hingað kom í fyrra.

Skemmta sér vel

Steingrímur Þorbjarnarson leiðsögumaður þekkir vel til aðstæðna í Kína. Hann var við nám í Kína á níunda áratugnum og er altalandi á kínversku. Hann stafar sem leiðsögumaður fyrir kínverska ferðamenn.  Það er áætlað að um 100 milljónir Kínverja hafi ferðast um heiminn í fyrra. Steingrímur segir að ferðamannamarkaðurinn í Kína sé að opnast.  Kínverjar hafi síðustu ár ferðast mikið um Asíu og nú til Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands. Þegar þeir hafa numið þessi lönd leiti þeir annað.

„Þá kemur Ísland oft upp á borðið. Og fyrir vikið streyma þeir hingað. Hver ferðaskrifstofan á fætur annarri þarna út uppgötvar þennan markað og sendir ferðamenn hingað," segir Steingrímur.

Hann segir að Kínverjum þyki gaman að koma hingað og þeir skemmti sér vel. Margir þeirra komi gagngert í einhverjum tilgangi. Í ljósmyndaferðir eða vilji læra eitthvað sérstakt um íslenskt þjóðfélag. 

„Þeir fara greinilega ánægðir héðan aftur og þeim finnst þeir hafa haft eitthvað upp úr ferðinni. Það skilar sér aftur í Kína í fleiri ferðamönnum," segir Steingrímur.

26 Kínverjar á skólabekk

Það er greinilegt að Kínverjar sem eru búsettir hér  búast við að landsmönnum þeirra sem heimsækja Ísland muni fjölga á næstu árum því í vetur hafa 26 Kínverjar stundað leiðsögumannanám í Ferðamálaskóla Íslands. Fram til þessa hefur ein og ein Kínverji tekið leiðsögumannapróf hér. Flestir sem nú sitja á skólabekk hafa reynslu af ferðaþjónustu hér og flestir eru búsettir hér.  Steingrímur hefur kennt þessum hópi í vetur og kennslan fer fram á kínversku. En hefur hann skýringu á því hvers vegna 26 Kínverjar hópast nú í þetta nám?

„Þeir eru að svara auknum kröfum vegna þess mikla fjölda sem hingað kemur. Það koma stærri hópar sem vilja fá upplýsingar um eitthvert ákveðið efni í stað þess að bara sé rabbað við þá eins hingað til hefur verið gert. Nú eru þetta líka lengri ferðir en áður og nauðsynlegt að geta upplýst ferðamennina betur," segir Steingrímur.

Fljótt þriðji stærsti markaðurinn

Eftirspurnin eftir leiðsögumönnum sem tala kínversku er greinilega fyrir hendi. Það að hér séu kínverskir leiðsögumenn ætti ekki að koma Íslendingum á óvart sem eru vanir að ferðast út um allan heim með íslenska leiðsögumenn sér við hlið. Speglinum er líka kunnugt um að fjölmargir Kínverjar hér á landi starfi í ferðaþjónustu og reki ferðaþjónustufyrirtæki. Þá eru til samtök  kínverskra leiðsögumanna hér. Markaðurinn í Kína er stór því þar búa 1,3 eða 4 milljarðar. Þó að allir hafi ekki efni á að ferðast er ljóst að kínverskum ferðamönnum mun fjölga ört. Steingrímur segir þó erfitt að spá í framtíðina hvað varðar ferðamannastrauminn hingað til lands. 

„ Það er ekki hægt að spá fyrir um það vegna þess að maður veit ekki hve lengi þessi veldisvöxtur varir lengi sem nú stendur yfir. Ef það er um það bil tvöföldun á ári þá er einfalt að reiknað það út að það tekur ekki nema tvö ár að komast upp í svipað fjölda og Bretar og Bandaríkjamenn. Þá verður þetta þriðji stærsti markaðurinn, " segir Steingrímur Þorbjarnarson.

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi