26% aukning verkefna hjá björgunarsveitunum

04.01.2016 - 20:42
Heildaraukning í verkefnum björgunarsveita var um 26% milli ára, þótt hálendisvegir hafi verið opnaðir seint. Aukninguna má fyrst og fremst rekja til rysjótts tíðarfars á fyrri hluta árs 2015, en útköll voru vel yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í október og nóvember.

Enn er umræðan um hlutverk björgunarsveitanna á Íslandi komin í brennidepil. Óveður og erlendur leiðangur sem þrisvar þurfti að koma til aðstoðar hafa séð til þess.

Fráfarandi formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Hörður Már Harðarson, talaði um aumingjavæðingu þjóðar í Kastljósi í fyrra, sem þyrfti að grípa inn í. Hvað eiga björgunarsveitirnar að gera, hvað eigum við sjálf að sjá um og á að rukka ferðamenn fyrir aðstoð?

Smári Sigurðsson, sem kjörinn var formaður Landsbjargar í fyrra, var gestur Kastljóss í kvöld. Smári er sammála Herði að mörgu leyti. Óþarfa útköllum þurfi að fækka verulega, einkum á svæðum þar sem er mikið álag vegna fjölda ferðamanna, en sveitirnar fámennar. Smári segir að nú styttist í að innanríkisráðuneytinu verði send niðurstaða mikillar stefnumótunarvinnu sem félagið hafi unnið undanfarið ár. Það sé ljóst að með þessu aukna álagi og fjölda gesta í landinu bæði vetur og sumar þurfi til að mynda fjölbreyttari fjármögnun en bara sölu flugelda og neyðarkalla til sveitunganna. Grundvallarhugsjónin breytist þó ekki neitt: Slysavörnum, leit og björgun verði alltaf sinnt og ótti við kostnað megi aldrei verða til þess að fólk í neyð hiki við að kalla eftir aðstoð.

 

 

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós