244 hafa drukknað á leið til Evrópu í janúar

epa05057070 Migrants, who came from Turkey, about to land from their overloaded rubber dinghy as they arrive at the coast near Mytilene, Lesbos island, Greece, 06 December 2015. France and Germany are calling for the deployment of EU border agents to
 Mynd: EPA  -  MTI
244 hafa drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið eða hluta þess það sem af er þessu ári. Aldrei hafa jafn margir flóttamenn látist á þessri leið á þessum tíma, í janúar á síðasta ári drukknuðu þar 80 manns, en 12 í janúar 2014. Mannréttindasamtök hvetja til þess að opnaðar verði öruggari leiðir fyrir flóttafólk, heimsálfanna á milli. Um 55.500 flóttamanna og förufólks hafa farið sjóleiðina til Evrópu það sem af er ári.

International Organization for Migration, IOM, alþjóðleg samtök sem fylgjast með ferðum og fjölda flóttamanna, förufólks og innflytjenda, greina frá þessu. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna gefur upp litlu lægri tölu, eða ríflega 54.500, og segir 236 hafa drukknað eða horfið.

Mikill meirihluti hinna drukknuðu hefur farist á stuttri sjóleiðinni milli Tyrklands og Grikklands, eða 218, en 26 á leiðinni frá Norður-Afríku til Ítalíu. Þótt leiðin sé stutt milli Tyrklands og Grísku eyjanna eru straumar þar sterkir og álar djúpir. Bátarnir sem notaðir eru til flutninganna eru iðulega yfirfullir gúmbátar og margir þeirra í lélegu ásigkomulagi að auki.

Þá hefur fjöldi falskra björgunarvesta fundist í fórum flóttafólks og á líkum þeirra sem drukkna. Lélegar eftirlíkingar, dauðagildrur sem draga fólk í djúpið fremur en að halda því á floti. Þótt aðeins séu um þrjár sjómílur milli tyrknesku strandarinnar og eyjarinnar Lesbos, þar sem flest flóttafólk kemur að landi, er það samt of langur spölur fyrir ósynt fólk með björgunarvesti sem sökkva, ef bát þeirra hvolfir.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV