200 m.kr. þarf til að auka öryggi ferðamanna

11.02.2016 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Fjölga þarf í lögreglunni á Suðurlandi um tíu manns hið minnsta og veita aukalega tvö hundruð milljónum króna til þess að auka öryggi ferðamanna. Þetta segir lögreglustjórinn á Suðurlandi.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi átti fund með ráðuneytisstjórum innanríkisráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.  Banaslys varð í gærmorgun þegar alda í Reynisfjöru í Mýrdal hrifsaði með sér kínverskan ferðamann.

Á fundinum var ákveðin neyðaráætlun til tveggja vikna, segir Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri. „Það verður vakt þarna yfir daginn, tveir lögreglumenn á vakt, einn til tveir, eftir atvikum,“ segir Kjartan og bætir við að vaktin verði þann tíma dags sem ferðamenn eru í fjörunni.  „Það liggur fyrir vilyrði að við fáum þetta greitt og jafnframt verður strax farið í áhættugreiningu á Reynisfjöru og til hvaða aðgerða þurfi að grípa og það var miðað við að öllu þessu væri lokið innan hálfs mánaðar,“ segir Kjartan. 

Eftir það á að grípa til varanlegra aðgerða til að reyna að tryggja öryggi ferðamanna. Fram kom í máli Víðis Reynissonar, lögreglufulltrúa á Suðurlandi, í fréttum RÚV í gærkvöldi að strax væri hægt að auka eftirlit með því að efla löggæslu og fjölga landvörðum. Þá krefjist það meiri undirbúnings gera stíga, tröppur, skilti og leiðbeiningar.

En hefur lögreglan á Suðurlandi mannskap til þess að hafa vakt í Reynisfjöru? „Við erum fámennir en við munum reyna að útvega okkur mannskap til að leysa þetta. Við náttúrulega leggjum mikla áherslu á að það sé fjölgað í lögregluliðinu. Við erum hér með þennan mikla ferðamannastraum sem er hérna og hann er ekki bara á ferðamannastöðunum.  Hann er líka í umferðinni og þar hefur því miður fjölgað banaslysunum og aukist mjög mikið umferðin. Við þurfum að efla stórlega umferðareftirlit. Við þurfum þó nokkuð mikið af viðbótarliði svo vel sé. Tíu manns held ég lágmark,“ segir Kjartan.

En hvað kostar þetta í aukafjárveitingum? „Við fórum fram á auknar fjárveitingar á þessu ári upp á 200 milljónir, til þess að takast á við þetta,“ segir Kjartan. Hann segir að auka þurfi eftirlit við fleiri staði, til að mynda Jökulsárlón og við jaðar Sólheimajökuls. Þá skipti miklu að hafa skilti og merkingar samræmdar.