17 milljarðar í ruslið vegna matarsóunar

23.03.2016 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sterkasta vopnið gegn matarsóun er neytandinn sjálfur. Þetta segir Rakel Garðarsdóttir stofnandi Vakandi, samtaka um aukna vitundarvakningu varðandi sóun matvæla. Hún segir neytandann verða að vera tilbúinn til að láta af því óhófi sem einkenni innkaupavenjur okkar og bendir á að sums staðar endi allt að helmingur matvæla í ruslinu.

Talið er að hér á landi fari matur fyrir um 17 milljarða króna á ári í ruslið.  Umhverfisstofnun er að fara af stað með viðamikla könnun á matarsóun Íslendinga og er viðbúið að niðurstaðan verði að hér sé hent of miklum mat og þar með fjármunum. Rakel Garðarsdóttir er stofnandi Vakandi er áhugakona um matarsóun. Hún segir óhófið allt of mikið og kallar eftir vitundarvakningu.

Við komumst náttúrulega aldrei hjá allri sóun en í dag erum við að sóa svona 30 til 40 % af þeim mat , sumir tala jafnvel um 50% af þeim mat sem framleiddur er í heiminum, og það er það sem er svo klikkað.

Rakel bendir á að hver og einn ætti að líta í eigin barm og skoða hvað hann geti gert.

Þá getum við hætt að henda mat heima hjá okkur til dæmis með því að kaupa minna inn, nýta það sem við eigum, við erum náttúrulega orðin svolítið snobbuð á mat eða á matarvenjur okkar, það er kannski til fullur ísskápur en við erum bara í stuði fyrir þetta í kvöld.

Rakel segir þetta snúast um meðvitund og segir að fólk verði að láta af þeim vana að halda að ljótt grænmeti sé vont eða skemmt grænmeti.

En það erum við neytendur sem höfum valdið það erum við sem þurfum að gefa í skyn að við erum til í að kaupa ljóta grænmetið, við viljum kaupa mat sem er að renna út á dagsetningu og fá þá afslátt af því en við þurfum þá að vera tilbúin í að kaupa það þannig að verslanir setji það á útsölu og svo kaupir það enginn, ég tel að sterkasta vopnið sé hjá okkur neytendum.

Segir Rakel Garðarsdóttir.