1,2 milljónir af launum forseta í góðgerðamál

17.02.2017 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur gefið 300 þúsund krónur af launum sínum til góðgerðarmála í hverjum mánuði frá því í nóvember síðastliðnum þegar hann tilkynnti á Bessastöðum að hann hygðist ekki þiggja um hálfrar milljónar króna launahækkun í kjölfar úrskurðar kjararáðs um laun æðstu embættismanna. Guðni staðfesti þetta í símtali til Fréttastofu RÚV.

Úrskurður kjararáðs vakti mikla óánægju í þjóðfélaginu og benti Öryrkjabandalagið t.a.m. á að á meðan laun þingmanna hefðu hækkað um tæpar 390.000 krónur hefði lífeyrir almannatrygginga hækkað um tæpar 19 þúsund krónur. Þá er á það bent að laun ráðherra hafi hækkað um 569 þúsund krónur og forsætisráðherra um 630 þúsund krónur. 

Guðni forseti efndi til blaðamannafundar á Bessastöðum 2. nóvember í fyrra en þann dag veitti hann Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar. Á fundum var Guðni spurður hvað honum þætti um ákvörðun kjararáðs að hækka laun hans. Guðni svaraði að hækkunin næmi um hálfri milljón og sagði: „Ég bað ekki um þessa kauphækkun og vissi ekki af henni. Ég þarf ekki þessa kauphækkun.“ Þá sagðist hann vænta þess að Alþingi myndi vinda ofan af ákvörðun kjararáðs. „Ákveði þingið að þessari ákvörðun verði hnekkt með einhverjum hætti þá leyfi ég mér að ítreka það að ég yrði fullkomlega sáttur við það og leið gæti fundist í þeim efnum. Þangað til þá sé ég bara til þess að þessi hækkun renni nú bara ekkert í minn vasa,“ sagði Guðni. 

Þrátt fyrir mikla umræðu um ákvörðun kjararáðs á Alþingi hefur henni ekki verið breytt. 

260.401 krónur eftir skatta
Fréttastofa RÚV óskaði eftir því í tölvupósti til embættis forseta Íslands í morgun að fá að vita hvernig þessi mál stæðu. Erindinu var svarað með símtali frá forseta sem upplýsti fréttastofu um að þegar skattar hefðu verið greiddir af hálfrar milljónar króna kauphækkuninni stæðu eftir 260.401 kr. Frá því í nóvember hefði hann greitt mánaðarlega 300 þúsund krónur til góðgerðamála. 

Þegar Guðni var spurður að því 2. nóvember síðastliðinn hvert peningarnir myndu renna svaraði hann, „þarf ég að segja það? Á ég að vera einhver móðir Teresa hérna sem gortir sig af því?” Einhverjir töldu að með þessu hefði forsetinn gefið í skyn að móðir Teresa væri vön að stæra sig af góðmennsku sinni. Hann leiðrétti þann misskilning í Facebook-færslu síðar sama dag og sagðist hafa átt við „að maður á ekki að vera gorta sig ef maður er í þeirri stöðu að geta hæglega látið fé af hendi rakna en verið vel stæður samt sem áður,“ skrifaði Guðni. 

Hann er enn sömu skoðunar og vill ekki greina frá því hvaða góðgerðafélög hafa fengið frá honum 1,2 milljónir króna. Hann greindi þó fréttamanni frá því til hvaða málefna féð hafi runnið hverju sinni en vill ekki gera þær upplýsingar opinberar. 

Aðspurður um það hvort Guðni hyggist áfram gefa launahækkun kjararáðs til góðgerðamála segist hann hafa búist við því að úrskurði kjararáðs yrði breytt á einhvern hátt. „Staðan er enn þannig frá mínum bæjardyrum séð að eins og sakir standa læt ég þetta hlutfall launa minna renna til góðgerðamála,“ segir Guðni. 

Forsetinn er nú að undirbúa sig fyrir opinbera heimsókn til Noregs í boði konungshjónanna.