11 milljónir fyrir formennsku í 5 stjórnum

20.01.2013 - 12:27
Mynd með færslu
Einn og sami maður fékk greiddar tæpar ellefu milljónir króna á einu og hálfu ári fyrir stjórnarformennsku í fimm félögum sem öll tengjast Hörpu. Stjórnarformaður rekstrarfélagsins fékk þrettán milljónir fyrri sama tímabil.

Þetta kemur fram í svari Jóns Gnarr borgarstjóra við fyrirspurn Kjartans Magnússaonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem lagt var fram í borgarstjórn á þriðjudag. Þar kennir ýmissa grasa. Fram kemur meðal annars að átta einkahlutafélög tengdust rekstri Hörpu. Pétur J. Eiríksson var formaður stjórnar fimm þeirra, Portusar, Totusar, Situsar, Hospes og Custos. Þá sat hann líka í stjórn rekstrarfélagsins Ago. Á sautján mánaða tímabili, frá og með maí 2011 og til og með september 2012, þáði hann 10.920.000 fyrir þessi viðvik. Þetta jafngildir 642 þúsund krónum á mánuði. Tvö þessara félaga, Custos og Hospes, voru sameinuð Situsi í fyrra.

Þótt Pétur sé sá stjórnarmanna í Hörpufélögunum sem sat í flestum stjórnum, er hann ekki sá launahæsti. það sæti vermir Þórunn Sigurðardóttir. Sem stjórnarformaður rekstrarfélagsins Ago og meðstjornandi í Portusi fékk hún rúmar þrettán milljónir. Þetta gerir sig á 766 þúsund króna mánaðarlaun að jafnaði.

Nokkrir fleiri voru líka með laun yfir einni og hálfri milljóna króna fyrir umrætt tímabil. Björn Ingi Sveinsson sat í tveimur stjórnum og fékk tvær milljónir og þrjátíu þúsund. Björn L. Bergsson sat í fórum stjórnum og fékk 1.850 þúsund. Svanhildur Konráðsdóttir fékk 1.680 þúsund fyrir setu í þremur stjórnum. Haraldur Flosi Tryggvason fékk 1.575 þúsund fyrir setu í þremur stjórnum. Margt af þessu fólki er í fullu starfi eða situr í öðrum stjórnum á vegum hins opinbera. Greiðslur fyrir það eru ekki taldar hér með.

Samanlagðar greiðslur til einstrakra stjórnarmanna í þessum átta félögum námu rúmri 41 milljón á sautján mánuðum.