11 látnir í Taívan

06.02.2016 - 12:09
Erlent · Asía
epa05145497 Rescuers carry a survivor from a collapsed building following a 6.4 magnitude earthquake that struck the area in Tainan City, Taiwan, 06 February 2016. At least three people, including an infant, were killed and dozens injured when a high-rise
 Mynd: EPA
Að minnsta kosti 11 eru látnir og hundruð slösuðust í jarðskjálfta sem reið yfir Taívan í gærkvöld. Hann mældist 6,4 að stærð. Tuga er saknað. Fjöldamörg háhýsi hrundu í suðurhluta Taívan þar sem skjálftinn átti upptök sín.

Björgunarmenn leita að fólki í rústum húsa í borginni Tainan, í suðurhluta Taívan. Tvær milljónir manna búa í borginni sem varð verst úti í skjálftanum. Mörg fjölbýlishús hrundu, þar á meðal eitt með hundrað íbúðum. Þar létu að minnsta kosti fjórir lífið. 30 hið minnsta er saknað í Tainanborg og björgunarmenn keppa við tímann í leit að  fólki á lífi í rústunum. Búið er að bjarga á þriðja hundrað manns.

Ma Ying-jeou, fráfarandi forseti Taívan, heimsótti borgina í morgun. Hann sagði að neyðarskýli yrðu reist fyrir þá sem hefðu misst heimili sín. Hundruð þúsund heimila í Tainan eru án vatns og rafmagns vegna skemmda á raflínum og vatnsleiðslum.

Upptök skjálftans voru í sunnanverðu Taívan. Hann varð ekki á miklu dýpi og telur bandaríska jarðvísindastofnunin að því hafi áhrifin magnast upp. Skjálftans varð vart í höfuðborginni Taipei, sem er í 300 kílómetra fjarlægð frá upptökunum. Fimm minni eftirskjálftar hafa orðið. Taívan liggur á mörkum tveggja landfleka og jarðskjálftar tíðir.

Kínverjar hafa boðið aðstoð sína vegna jarðhræringanna í gærkvöldi og nótt. Ekki er þó talin þörf á því. Árið 1999 létu rúmlega 2.300 manns lífið í miðhluta Taívan þegar jarðskjálfti, sem mældist 7,6, reið þar yfir. Þá buðu Kínverjar aðstoð en stjórnvöld í Taívan sökuðu þá ráðamenn í Peking um að vilja nota sér hörmungarnar í pólitískum tilgangi. Kínversk stjónvöld hafa aldrei viðurkennt Taívan sem sjálfstætt ríki.