1.000 punda skattur fyrir að ráða útlendinga

12.01.2017 - 06:09
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Frá og með apríl á þessu ári þurfa vinnuveitendur í Bretlandi að greiða 1.000 punda ráðningargjald, um 140.000 krónur, til hins opinbera, fyrir hvern starfsmann frá landi utan Evrópusambandsins, sem þeir ráða í vinnu. Eftir að Bretland gengur út Evrópusambandinu er ætlunin að þetta gildi einnig um ráðningu starfsfólks frá aðildarlöndum þess. Robert Goodwill, ráðherra innflytjendamála í stjórn Theresu May, greindi frá þessu á fundi þingnefndar í gær.

Breskum atvinnurekendum hugnast þessar fyrirætlanir stjórnvalda illa. Seamus Nevin, hjá samtökum um 40.000 framámanna í bresku atvinnulífi, Institute of Directors, hvetur stjórnina til að endurskoða tillöguna. Þessi skattur - því þetta sé ekkert annað en skattur - muni hægja á fjölgun starfa og auka enn á þá óvissu og erfiðleika sem mörg fyrirtæki þurfi nú þegar að glíma við vegna Brexit.

Talskona Theresu May, forsætisráðherra, segir ráðningargjaldið aðeins eina af mörgum tillögum sem miði að því að draga úr fjölda innflytjenda til landsins, sem hafi jú verið eitt helsta baráttumál þeirra þeirra sem beittu sér fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Hún staðfesti að það markmið væri enn ofarlega á lista ríkisstjórnarinnar, en leiðirnar að því væru enn í skoðun. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV