100 ár frá fæðingu Kristjáns Eldjárns

20.03.2016 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Í tilefni þess að í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, fyrrum forseta Íslands, verður í dag haldið málþing honum til heiðurs á Dalvík. Þar verður fjallað um bók sem Kristján var byrjaður að skrifa þegar hann lést og Sögufélag Svarfdæla gefur út á afmælisárinu.

Hátíðin Svarfdælskur mars stendur yfir nú um helgina. Á málþingi í dag verður fjallað um Kristján frá ýmsum hliðum. Forsetann og fjölskyldumanninn, arfleifð hans sem fornleifafræðings og fjallað verður um verkefni sem Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur vinnur nú upp úr gögnum sem Kristján skildi eftir sig þegar hann lést.

„Þetta er bók sem hann nefnir: Sagan í moldinni. Tillaga dr. Kristjáns Eldjárns um ritun miðaldasögu Svarfaðardals,“ segir Svanfríður Inga Jónasdóttir, forsprakki hátíðarinnar Svarfdælskur mars. Hún segir að börn Kristjáns Eldjárns hafi falið Árna Daníel þetta verkefni og bókin komi út 6. desember, á fæðingardegi Kristjáns. Málþingið nú sé nokkurs konar upptaktur þessa afmælisárs og efnistökin þar sýni hversu fjölhæfur maður Kristján var.

„Það er alveg ljóst að hann hefur ekki verið alveg einhamur og okkur fannst, á þessu ári að það væri full ástæða til þess að minnast hans. Og sömuleiðis að lyfta því hvað Sögufélag Svarfdæla hefur verið að gera, eins og varðandi þessa bók sem kemur þá væntanlega út í haust og lokar þessu afmælisári,“ segir Svanfríður.  

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV