Spurt og svarað

Spurningar og svör

Hvers vegna er kosið og hvar er ég á kjörskrá? Hér finnur þú svör við því helsta sem gott er að hafa í huga þegar líður að kosningum.

Það eru tvær leiðir til að greiða atkvæði í alþingiskosningunum. Hægt er að mæta á kjörstað á kjördag eða greiða atkvæði utan kjörfundar áður en kjördagur rennur upp.

Á kjörstað þarf kjósandi að gera grein fyrir sér með því að framvísa skilríkjum. Starfsmenn kjörstjórnar afhenda kjósanda þá kjörseðil sem hann fer með í kjörklefann. Til þess að greiða atkvæði þarf að marka kross með blýanti í ferning fyrir framan bókstaf þess lista sem kosinn er. Hægt er að breyta röðun frambjóðenda á þeim lista sem kosinn er og hafna frambjóðanda á listanum sem er kosinn. Nánar um yfirstrikunarreglur hér fyrir neðan.

Kjörseðillinn er svo brotinn saman á sama hátt og hann kom í hendur kjósandans. Kjósandinn verður svo að setja seðilinn í kjörkassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar.

Alþingiskosningar eru leynilegar kosningar svo kjósandi verður að gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði. Kjörstjórn merkir svo við nafn kjósandans á kjörskrá um leið og hann hefur kosið.

Allir sem hafa kosningarétt í alþingiskosningunum eru skráðir á kjörskrá í sínu kjördæmi. Fjöldi kjörstaða er mismunandi eftir kjördæmum og kjörstöðum er skipt í kjördeildir til þess að auðvelda aðgengi kjósenda að kjörklefanum. Hér, á vef Þjóðskrár, er hægt að fletta nafninu sínu upp í kjörskrá og fá upplýsingar um hvert skal halda til að greiða atkvæði á kjördag, 25. september 2021.

Þá er öllum frjálst að greiða atkvæði utan kjörfundar fyrir kjördag. Utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst um miðjan ágúst.

Hægt er að gera breytingar á þeim framboðslista sem kjósandi vill velja á kjörseðlinum. Ef búið er að merkja við (kjósa) einn lista en öðrum lista er breytt verður atkvæðið sjálfkrafa ógilt. Hægt er að hafna frambjóðendum og endurraða á framboðslistanum sem kosinn er.

Frambjóðanda er hafnað með því að strika yfir nafn hans á kjörseðlinum.

Nafnaröð á þeim framboðslista sem er kosinn er breytt þannig að tölustafurinn 1 settur fyrir framan það nafn sem kjósandi vill hafa efst, 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa í öðru sæti og þannig koll af kolli. Ekki þarf að endurraða öllum listanum, frekar en kjósandi vill.

Athugið að ef önnur merki eru sett á kjörseðilinn verður atkvæðið ógilt. Ekki má hagga við listum sem kjósandi kýs ekki, hvorki strika yfir frambjóðendur né breyta nafnaröð þeirra.

Allir íslenskir ríkisborgarar sem eru 18 ára og eldri og eiga lögheimili hér á landi þegar kosning fer fram geta kosið í alþingiskosningum. Það þýðir að einstaklingur sem er fæddur 26 . september 2003 eða síðar getur ekki kosið í þessum kosningum.

Íslenskir ríkisborgarar sem hafa flutt til útlanda halda kosningarétti í átta ár frá því að þeir flytja lögheimili sitt af landinu. Þann tíma er hægt að framlengja með því að sækja sérstaklega um það til Þjóðskrár Íslands.

Kjörtímabil Alþingis er fjögur ár og þess vegna er að jafnaði kosið á fjögurra ára fresti til löggjafarþingsins. Síðast var kosið til Alþingis 28. október 2017, fyrir um fjórum árum. Hægt er að boða til kosninga þótt kjörtímabilinu sé ekki lokið. Alþingiskosningar hafa yfirleitt verið haldnar að vori eða sumri á Íslandi með fáeinum undantekningum.

Síðustu tvennar alþingiskosningar hafa verið haldnar að hausti, fyrst árið 2016 í kjölfar þess að forsætisráðherra sagði af sér og svo ári síðar þegar meirihlutasamstarfi sitjandi ríkisstjórnar var slitið.

Tíu flokkar hafa fengið úthlutað listabókstaf fyrir Alþingiskosningarnar 2021 og skilað framboðslista í minnst einu kjördæmi. Þau framboð eru (í stafrófsröð listabókstafa):

 • Framsóknarflokkurinn (B)
 • Viðreisn (C)
 • Sjálfstæðisflokkurinn (D)
 • Flokkur fólksins (F)
 • Sósíalistaflokkurinn (J)
 • Miðflokkurinn (M)
 • Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (O)
 • Píratar (P)
 • Samfylkingin (S)
 • Vinstri hreyfingin grænt framboð (V)

Framboðsfrestur til Alþingis rennur út 15 dögum fyrir kjördag, 10. september, svo framboðum getur enn fjölgað.

Hægt er að greiða atkvæði utan kjörfundar – það er ekki á kjördag – hjá sýslumönnum um allt land. Sýslumenn auglýsa hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram og allar upplýsingar má finna á vefsíðu sýslumanna.

Hægt er að greiða atkvæði utan kjörfundar erlendis á skrifstofum sendiráðs Íslands, í sendiræðisskrifstofu eða hjá kjörræðismanni samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið getur annars ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Upplýsingar um sendiskrifstofur má finna hér og lista yfir kjörræðismenn eftir löndum hér.

Nánari upplýsingar um hvar og hvernig er hægt að kjósa utan kjörfundar má finna á kosningavef stjórnarráðsins hér. Þar má finna upplýsingar um hvernig kosið er á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum. Þá er hægt að óska eftir að greiða atkvæði í heimahúsi ef kjósandi getur ekki sótt kjörfund. Og svo er hægt að kjósa um borð í skipi.

Já, ef kjósandi er í einangrun eða sóttkví vegna COVID-19 fyrir kjördag er hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar. Sýslumenn skipuleggja atkvæðagreiðslu í samráði við sóttvarnayfirvöld fyrir þá sem ekki komast á kjörstað eða geta ekki greitt atkvæði í reglulegri utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Sýslumenn auglýsa hvar slík atkvæðagreiðsla fer fram. Atkvæðagreiðsla í sóttkví má þó ekki hefjast fyrr en fimm dögum fyrir kjördag, það er 20. september 2021.

Sóttvarnayfirvöld geta bannað kjósanda að greiða atkvæði á dvalarstað sínum ef heilsu kjörstjóra eða annarra er stefnt í hættu. Sú ákvörðun er endanleg og ekki hægt að kæra. Sá sem er í sóttkví eða einangrun vegna farsóttarinnar telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréfið og því skal kjörstjóri veita honum aðstoð við það án þess að nokkur annar sjái.

Nánar um reglur vegna atkvæðagreiðslu í sóttkví eða einangrun hér.

Allar opinberar upplýsingar um alþingiskosningarnar og aðrar kosningar á Íslandi má finna á vef stjórnarráðsins kosning.is.

Umfjöllun um kosningarnar, kannanir og málefni má finna á kosningavef RÚV, ruv.is/x21

Í alþingiskosningum eru 63 þingmenn kjörnir úr sex kjördæmum. Kjördæmin eru skilgreind eftir landsvæðum:

 • Norðvesturkjördæmi (8 þingmenn)
 • Norðausturkjördæmi (10 þingmenn)
 • Suðurkjördæmi (10 þingmenn)
 • Suðvesturkjördæmi (13 þingmenn)
 • Reykjavíkurkjördæmi norður (11 þingmenn)
 • Reykjavíkurkjördæmi suður (11 þingmenn)

Landinu var skipt í þessi kjördæmi með stjórnarskrárbreytingu árið 1999 með það að markmiði að jafna vægi atkvæða milli landshluta frá því sem áður var. Fyrir breytinguna var mesti munur atkvæðavægis milli tveggja kjördæma tæplega fjórfaldur.

Þrátt fyrir breytinguna er atkvæðavægi milli kjördæma enn ójafnt. Í fyrstu kosningum eftir breytingu hefðu kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu átt að fá 5-6 þingsætum meira ef atkvæðavægi hefði verið jafnt. Sá munur eykst eftir því sem íbúum fjölgar hraðar í kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu en í landsbyggðarkjördæmum.

Til þess að jafna frekar vægi atkvæða eftir kjördæmum er svokölluðum jöfnunarþingsætum úthlutað eftir að kjördæmasæti hafa verið ákvörðuð. Kjördæmasæti eru reiknuð með d'Hondt-reglunni í samræmi við niðurstöðu kosninga innan hvers kjördæmis. Jöfnunarþingsæti taka mið af úrslitum á landsvísu og eiga að leiðrétta misræmi milli fylgis flokks á landsvísu og fjölda kjördæmasæta. Til þess að eiga rétt á jöfnunarþingsæti þarf flokkur að hafa fengið meira en fimm prósent atkvæða á landsvísu.

Nánar má lesa um kjördæmaskiptingu Íslands hér.

RÚV fjallar um alþingiskosningarnar í öllum miðlum; útvarpi, sjónvarpi og á vefnum. Alla umfjöllun RÚV má finna á kosningavefnum ruv.is/x21.

Auk hinnar hefðbundnu kosningavöku í sjónvarpi verða tvennar kappræður forystumanna stjórnmálaflokkanna í beinni útsendingu, 31. ágúst og 24. september. Öllum forystumönnum flokka sem bjóða fram í kosningunum er boðið að koma í Forystusætið; viðtal þar sem baráttumál framboðanna eru krufin. Og þá fá framboðin, lögum samkvæmt, að birta eigin myndskeið þar sem þau kynna sig í sjónvarpinu.

Í útvarpinu snúast hinir hefðbundnu stjórnmálaumræðuþættir að mestu leyti um kosningarnar. Auk þeirra verða kjördæmafundir á dagskrá Rásar 2. Kjördæmafundirnir verða sex talsins og í þeim verða kosningamál hvers kjördæmis rædd með frambjóðendum flokkanna í kjördæminu.

Þá framleiðir RÚV sérstakt kosningahlaðvarp þar sem fjallað er um kosningarnar frá ýmsum sjónarhornum.

Alla umfjöllun RÚV um kosningarnar auk frétta, fróðleiks, tölfræði og fréttaskýringa má finna á vefnum og sérstökum kosningavef RÚV, ruv.is/x21.

Fylgst verður með talningu atkvæða í kosningunum á kosningavöku RÚV í sjónvarpi og á vefnum RÚV.is. Þar verður greint frá nýjum tölum þegar þær berast og rýnt í hverjir ná kjöri og stjórnmálin greind. Fréttastofa RÚV greinir svo frá niðurstöðum kosninganna þegar þær liggja fyrir.

Hagstofa Íslands og landskjörstjórn gefa út staðfestar niðurstöður kosninganna þegar búið er að yfirfara skýrslur yfirkjörstjórna hvers kjördæmis og úthluta þingsætum í takt við atkvæðavægi og þær reglur sem gilda.

Hægt er að sjá niðurstöðu skoðanakannana um fylgi við framboð til Alþingis á tölfræðivef RÚV fyrir kosningarnar.

Allir þeir sem eru með kosningarétt og með óflekkað mannorð mega bjóða sig fram til Alþingis. Ef þú ert hæstaréttardómari máttu ekki gefa kost á þér. Kosningaréttur og kjörgengi er skilgreint í fyrsta kafla laganna um kosningar til Alþingis.

Úrslit Alþingiskosninga liggja yfirleitt fyrir snemma morguns daginn eftir kjördag. Talning atkvæða í kosningunum hefst þegar kjörstöðum er lokað, sem er yfirleitt klukkan 22) og fljótlega eftir það fara fyrstu tölur að berast. Fyrstu tölur gefa oft vísbendingu um hvernig atkvæði eiga eftir að raðast. Atkvæði eru talin í hverju kjördæmi fyrir sig og yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi sendir landskjörstjórn skýrslu um fjölda atkvæða um leið og talningu er lokið. Landskjörstjórn kemur svo saman og staðfestir úrslit kosninga og úthlutar þingsætum. Eftir kosningarnar 28. október 2017 voru úrslit kosninganna staðfest tveimur dögum síðar, þann 30. október. Nánar á vef landskjörstjórnar hér.