Víðsjá
Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.
Eru okkar mikilvægustu almannagæði falin í heita vatninu? er spurt á sýningunni SUND sem opnuð var í Hönnunarsafni Íslands í byrjun febrúar. Sýningarstjórar eru Brynhildur Pálsdóttir hönnuður og Valdimar Tr. Hafstein prófessor í þjóðfræði. Víðsjá leit inn á sýninguna á opnunardaginn og ræddi þar við Brynhildi um það sem snýr að hönnun sundlauga en við þar sem Valdimar var í einangrun ákváðum við að hittast síðar og ræða þá hlið sýningarinnar sem snýr að þjóðfræðirannsókninni, en sýningin er unnin í samstarfi þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Við Valdimar hittumst í laugardalslauginni í morgun og ræddum þróun baðmenningar á Íslandi, hugmyndir okkar um hreina líkama, rasisma, félagslegar mælistikur og fleira og fleira.
En svo er það meiri samtímatónlist, sem við vorum að tala um hér í Víðsjá í gær vegna Myrkra músíkdaga sem nú eru hafnir. En það er meira á seyði í samtímatónlistinni. Í kvöld eru forvitnilegir tónleikar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem Daníel Bjarnason stjórnar flutningi á þremur verkum, eitt þeirra er eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur en annað eftir John Adams og það þriðja er glænýr píanókonsert Daníels sjálfs sem tileinkaður er einleikaranum Víkingi Heiðari Ólafssyni. Um er að ræða pöntun frá SÍ og LA Phil og frumflutt í Disney salnum glæsta í Los Angeles á dögunum. Við rifjum upp hvað gagnrýnadi LA Times hafði um verkið að segja og heyrum brot úr verkinu af aðaæfingu fyrr í dag.
Það er áskorun fyrir kynslóðina mína að horfast í augu við brostin loforð um þægilega framtíð, líkt og það er erfitt fyrir eldri kynslóðir að horfast í augu við að gildi vestrænna þjóðfélaga, gildi okkar, sköpuðu veruleika sem er að valda hruni vistkerfa heimsins. Auðveldara er að ríghalda í gömlu gildin og gömlu draumana? svo segir Birnir Jón Sigurðsson í sínum þriðja pistli um loftslagsmál. Að þessu sinni skoðar Birnir Jón Sigurðsson afstöðu okkar gagnvart loftslagsaðgerðum. Til umfjöllunar er línulegt hagkerfi, velsældarmælikvarðar, veruleiki kulnunarkynslóðarinnar og Monty Python.
Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.