Því kvölda tekur og degi hallar
Fræg er sagan um það þegar Kristur upprisinn hitti lærisveinana tvo á leið til þorpsins Emmaus. Frá því er sagt í Lúkasarguðspjalli og hefur frásögnin orðið að innblæstri fyrir tónverk og ljóð. Nokkur þeirra eru flutt í þættinum. Af tónverkum sem þar fá að hljóma má nefna þátt úr kantötunni „Bleib bei uns, denn es will Abend werden“ eftir Johann Sebastian Bach og sálmalagið „Abide with me, fast falls the eventide“ eftir William Henry Monk, samið við sálm eftir Henry Francis Lyte. Einnig verður flutt brot úr tíðasöng munka í Latrún-klaustrinu sem er staðsett skammt frá þeim stað þar sem talið er að Jesús hafi hitt lærisveinana. Meðal ljóða sem koma við sögu í þættinum eru „Gangan til Emmaus“ eftir Steingerði Guðmundsdóttur, „Eyðilandið“ eftir T.S. Eliot og „Tíminn og vatnið“ eftir Stein Steinarr. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Þór Tulinius.