Syngið þið fuglar - um gítarleikarann Ólaf Gauk

Syngið þið fuglar - um gítarleikarann Ólaf Gauk

Fjallað um gítarleikarann Ólaf Gauk, hljómsveitir hans, lög og texta.

Í þættinum leika og syngja hljómsveit Björns R. Einarssonar, tríó Ólafs Gauks, Öskubuskur, Haukur Morthens, KK sextettinn, Ragnar Bjarnason, Sigrún Jónsdóttir, Elly Vilhjálms, Hljómar, Dátar, sextett Ólafs Gauks, Svanhildur Jakobsdóttir, Rúnar Gunnarsson, Björk Guðmundsdóttir, Stórsveit Ríkisútvarpsins, Anna Mjöll Ólafsdóttir og Ólafur Gaukur Þórhallsson.

Hljóðritanirnar eru frá 1951-1996, af útvarpslakkplötum; 78, 45 og 33ja snúninga plötum; úr sjónvarpsþáttum þ.á.m. Hér gala gaukar; af heimasegulböndum og geisladiskum.

Meðal laga sem hljóma í þættinum eru Sweet Lorraine (sungið af Ólafi Gauki), Bjartar vonir vakna (með Öskubuskum) og Ég er kominn heim (með Hauki Morthens). KK sextettinn flytur m.a Ljúfa vina og Ó, María mig langar heim og svo hljómar einnig syrpa af íslensku „bítli“, lögum með Hljómum og Dátum sem Ólafur Gaukur gerði íslenska texta við. Frægasta gítarsóló Íslandssögunnar er á sínum stað í laginu Vegir liggja til allra átta og sömuleiðis einn fallegasti texti Ólafs Gauks: Heyr mína bæn. Sextettinn og Svanhildur flytja m.a. lög úr sjónvarpsþáttunum „Hér gala gaukar“ og af Vestmannaeyjaplötunni frá 1968. Björk syngur stórsveitarútgáfu Gauks á laginu Kata rokkar og einnig hljóma tvö lög sem feðginin Anna Mjöll og Ólafur Gaukur fluttu í söngvakeppnum Sjónvarpsins: Eins og skot, og Sjúbídú.

Umsjón: Lana Kolbrún Eddudóttir.