Blessunarlega var veðurofsinn síðustu nótt ekki eins slæmur og talið var í fyrstu. Þó olli hann talsverðum vandræðum og tjóni. Þetta er þó langt því frá að vera afstaðið og er búist við þó nokkrum hvelli í Grindavík og þar í kring núna seinnipartinn. Við tökum stöðuna á eftir og heyrum í Guðna Oddgeirssyni svæðisstjór bjögunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Kristján Hreinn Stefánsson fæddist í gamla torfbænum í Gilhaga í Skagafirði. Kristjáni er margt til lista lagt, þar á meðal er hann tónskáld, ljóðskáld og hagyrðingur en mest gerir hann af því að uppstoppa dýr. Nýverið lauk hann við að stoppa upp kindahaus númer fjögurhundruð! Við heyrum í Kristjáni í þættinum.
Mikil lækkun varð á hlutabréfaverði Meta, móðurfélags Facebook, í síðustu viku. Við opnun markaða á fimmtudag hrundi hlutabréfaverð félagsins um 26%. Talið er að aldrei í sögu bandaríska hlutabréfamarkaðarins hafi markaðsvirði fyrirtækis lækkað um jafnháa upphæð á einum degi.
Atli Fannar Bjarkason samfélagsmiðlasérfræðingur RÚV.
Um helgina átti Elísabet II 70 ára krýningarafmæli og af því tilefni notaði hún tækifærið og tilkynnti að þegar Karl Bretaprins verður gerður að konungi muni Camilla Parker hertogaynjan af Cornwall fá titilinn drottning. Þetta þóttu frekar stórar fréttir í ljósi þess að áður hafði verið samþykkt að hún myndi taka sér titilinn prinsessan af Cornwall þegar að því kæmi.
Anna Lilja Þórisdóttir fréttamaður kemur til okkar, en hún veit allt um bresku konungsfjölskylduna.
Svo er það Óðinn Svan Óðinsson fréttamaður okkar fyrir norðan sem tekur stöðuna á veðurofsanum með okkur.
Óvíst er hvort að framleiðslu áströlsku þáttanna Nágranna verði haldið áfram en þættirnir hafa verið sýndir víða um heim frá árinu 1985. Samningar eru lausir á milli framleiðslufyrirtækisins sem framleiðir þættina og breskrar sjónvarpsstöðvar sem borgar að mestu fyrir gerð þáttanna. Því er allt útlit fyrir að tökum á þáttunum verði hætt í sumar aðdáendum til mikillar óánægju. Fannar Freyr Guðmundsson er einn þeirra sem fylgst hefur með þáttunum frá blautu barnsbeini og Fannar er á línunni.