Síðdegisútvarpið

9.des

Einungis fimmtungur 15 ára unglinga nær átta klukkustunda svefni á skóladögum. Meðaltalið er sex og hálf klukkustund í svefn en svefninn minnkar enn meira, eða um nærri hálfa klukkustund, þegar unglingarnir fara í framhaldsskóla. Samhliða þessu minnkar hreyfing hjá unglingunum til muna eftir þau skipta um skólakerfi. Þetta kemur fram í umfangsmikilli rannsókn, sem unnin er af vísindamönnum við Háskóla Íslands, á heilsu og svefni ungmenna þar sem þeim var fylgt eftir úr tíunda bekk og fram í framhaldsskóla Erlingur Sigurður Jóhannsson er prófessor á menntavísindasviði hann kemur og segir okkur frá helstu niðurstöðum þessarar rannsóknar.

Húsvörðurinn Jóhann Jónsson eða Jói Rækja eins og hann er oftast kallaður lenti í heldur óhugnarlegu atviki í starfi sínu í Háskólanum á Akureyri þegar hann meðhöndlaði geymsluhólk i kjallara skólans. Enginn kannast við hólkinn en það sem verra er er Jóhann veiktist eftir meðhöndlunina og er andlit hans eins og eftir slæmann bruna. Starfsmenn Geislavarna ríkisins voru kallaðir á staðinn þar sem haldið var hólkurinn væri geislavirkur en svo reyndist ekki. Jói Rækja er ennþá veikur og enn er ekki vitað hvaðan hólkurinn kom eða hvað væri í honum. Við heyrum í húsverðinum í þættinum.

Um helgina lýkur tveggja vikna útgöngubanni í Austurríki. Landsmönnum verður gert skylt frá fyrsta febrúar láta bólusetja sig gegn kórónuveirunni en Austurríki er þar með eitt af fyrstu löndum til ákveða slíka skyldu. En hvernig skyldi staðan vera á skíðasvæðunum, munu þau opna fyrir ferðamönnum ? Við hringjum til Austurríkis og heyrum í Þórhildi Hinriksdóttur sem býr hluta ársins í Wagrain sem er vinsæll skíðabær og margir íslendingar þekkja.

Barnabarinn er nýjasta verkefni Krakkaveldis, sem eru samtök barna sem vilja breyta heiminum. Nýjasta framtak Barnabarsins er opna hárgreiðslustofu sem staðsett er í Norrænahúsinu. Klippingarnar eru ókeypis og eru takmörkuð pláss í boði. Klippingarnar eru ætlaðar fullorðnum sem eiga eftir jólaklippinguna. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir mætir til okkar á eftir sem talsmaður hárgreiðslustofu Barnabarsins.

En við byrjum á JólaFló á Skagaströnd. Jólafló er jólaflóamarkaður í NES Listamiðstöð Skagastrandar. Eva Guðbjartsdóttir veit meira um hann og er hún á línunni.

Birt

9. des. 2021

Aðgengilegt til

9. des. 2022
Síðdegisútvarpið

Síðdegisútvarpið

Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.