Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hitti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í morgun og kynnti fyrir henni ársskýrslu sína fyrir árið 2020. Salvör ætlar að segja okkur það helsta sem henni liggur á hjarta hvað varðar málefni barna á Íslandi eftir vægast sagt undarlegt ár.
VÍDJÓ er nýtt hlaðvarp úr smiðju vinanna Hugleiks Dagssonar og Söndru Barilli, sem fjallar um gamlar kvikmyndaperlur sem dúóið horfir á saman og ræðir svo. Með aðstoð hlustenda hafa þau íslenskað titla á mörgum þekktustu kvikmyndaperlum sögunnar svo útkoman verður oft sprenghlægileg. Við heyrum í Söndru Barilli.
Það lá frekar óskemmtileg þokumóða yfir höfuðborginni í dag. Á tímabili sást ekki yfir Fossvoginn frá Útvarpshúsinu hér í Efstaleiti en það hefur sem betur fer skánað. Ástæðan er svokölluð gosmóða eða blámóða frá eldgosinu í Geldingadölum, sem virðist reyndar vera farið að hægja verulega á sér. Í bili að minnsta kosti. Móðan inniheldur mengun sem hefur náð að umbreytast og greinist hún því ekki með hefðbundnum mælingum á brennisteinsdíoxíði skv. tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, sem minnir á að svona mengun geti orsakað slen, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk flensueinkenna. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu. Þeir sem eru síður viðkvæmir geta einnig fundið fyrir einkennum. Svava S. Steinarsdóttir heilbrigðisfulltrúi ætlar að greina þetta betur.
Sala á nýjum bílum hefur tekið mikinn kipp milli ára - en sala nýrra bíla í júní á þessu ári jókst um 122% miðað við júní í fyrra. Salan eykst á öllum vígstöðum; til einstaklinga, fyrirtækja og bílaleiga - en þar er aukningin í júní meira en 300% miðað við sama tíma í fyrra. Jóhannes Jóhannesson hjá Bílgreinasambandinu fer yfir þessi mál með okkur á eftir.
Sumartónleikar RÚV og Rásar 2, Tónaflóð verða í beinni útsendingu frá öllum landshlutum á föstudögum í júlí þar sem áhersla verður lögð á þekkta íslenska tónlist. Á hverjum stað halda þjóðþekktir gestasöngvarar uppi fjörinu ásamt húsbandinu góða, Albatross. Jón Jónsson verður aðal númer fyrstu tónleikanna sem eru í Eyjum í kvöld. Síðdegisútvarpið hitti Jón í Eyjum fyrr í dag og spurði hann fyrst hvenær hann kom síðast til Eyja.