Óvíd og Ummyndanirnar
Skáldið Óvíd var nýjungamaður í rómverskri ljóðlist og sló á léttari strengi en tíðkast hafði hjá skáldakynslóðinni sem fór á undan honum.
Á valdatíð Ágústusar áttu skáldin að þjóna keisaranum, íhaldssemin þótti æðst dyggða og bókmenntirnar voru hlaðnar siðferðilegum alvöruþunga. Í ljóðum Óvíds ríkir aftur á móti léttleiki og gáski. Í Ummyndunum, sem eru meistaraverk Óvíds, er víða snúið upp á formfastar og þunglamalegar hefðir, þótt textinn sé alvarlegur í bland. Í fjórum síðustu bókum Ummyndana fjallar Óvíd um sama efni og Virgill, fremsta hirðskáld Ágústusar, hafði afgreitt með sínum hætti í Eneasarkviðu. Í þættinum verður fjallað um samband Óvíds og bókmenntahefðarinnar sem þjónaði svo stóru hlutverki við upphaf rómversku keisaraaldarinnar.
Lesari er Atli Freyr Steinþórsson. Tónlist í þættinum er eftir Benjamin Britten.