Morgunútvarpið

23. des. - Bólusetning, ristun, hjálparsími, Völvan og Spánn

Upplýsingafyrirtækið Origo vinnur að ýmsum lausnum, m.a. heilbrigðislausnum og nýjasta viðfangsefnið á þeim vettvangi er þróun kerfis í kringum bólusetningar. Kerfið mun m.a. sjá um að boða fólk í bólusetningu, skrá allar bólusetningar í bólusetningargrunn sóttvarnalæknis og fleira. Arna Harðardóttir, viðskiptastjóri heilbrigðislausna Origo, var á línunni og sagði okkur frá þessu.

SORPA og Te og kaffi hafa undirritað þróunarsamning um kaup á metani, en hluti af metaninu er framleiddur með niðurbroti á umbúðum frá Te & kaffi og metanið verður svo nýtt sem orkugjafi til að rista kaffibaunir hjá Te & kaffi. Þau Gunnar Dofri Ólafsson, sérfræðingur í samskiptum og samfélagsvirkni frá SORPU og Kristín María Dýrfjörð, einn eigenda Te & kaffi, komu til okkar og útskýra betur um hvað málið snýst.

Margir eru einir um jólin og einmana. Hjálparsími Rauða krossins er til staðar fyrir þá sem þess óska. Við fengum smá innsýn í hvernig það starf gengur fyrir sig og hvert skal leita. Við fengum Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdarstjóra Rauða krossins, til okkar en Rauði krossinn hefur haft í nógu að snúast á þessu ári. Rekstur sóttvarnarhúsanna og síðan aðkoman að hamförunum fyrir austan svo eitthvað sé nefnt.

Þessi leiðindaári lýkur bráðum og margir spenntir að vita hvað nýja árið ber í skauti sér. Lengi hefur verið vinsælt að glugga í Völvuspár og ein sú mest lesna hefur birst í tímaritinu Vikunni. Völvublaðið er enda vinsælasta tölublað hvers árs og það kom út í gær. Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Vikunnar kíkti til okkar í morgunkaffi og gluggaði í spána með okkur til gamans, en þar mun víst ýmislegt krassandi vera að finna.

Við heyrðum svo í Jóhanni Hlíðar Harðarsyni suður á Spáni sem færði okkur forvitnilegar fréttir, m.a. af spænskum jólahefðum og jólahappdrætti sem hélt þjóðinni hugfanginni í allan gærdag.

Tónlist:

Ragnheiður Gröndal - Gleði- og friðarjól.

Vera - Hvað ertu að gera á gamlárskvöld.

Jóhanna Guðrún - Löngu liðnir dagar.

Eivör Pálsdóttir - Dansaðu vindur.

Magni og Norðurljósin - Frá borg er nefnist Bethlehem.

Boney M - Marys boy child oh my lord.

James Brown - Santa Claus go straight to the ghetto.

Birt

23. des. 2020

Aðgengilegt til

23. mars 2021
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hulda G. Geirsdóttir Sigmar Guðmundsson og Rúnar Róbertsson.

Þættir