Morgunútvarpið

16. des. - Skoppa og Skrítla, laxeldi, menntamál, aurskriður, útlönd.

Lítið hefur farið fyrir þeim Skoppu og Skrítlu í heimsfaraldrinum og ekkert varð af því að þær gætu stigið á svið í nóvember eins og til stóð þar sem endurtaka átti vel heppnaða yfirlitssýningu yfir 15 ára feril þeirra. Þær hafa þó fundið leið til að snúa á Covid og ætla að gleðja börnin á annan hátt. Linda Ásgeirsdóttir er nátengd þeim stöllum og hún kíkti til okkar í morgunspjall.

Nú fyrir skömmu fór fram vefráðstefna um landeldi á laxi í Þekkingarsetrinu Ölfus Cluster. Því er spáð að fjárfesting í landeldi næsta áratuginn muni nema nærri 2.500 milljörðum og að framleiðslan nái 800 þúsund tonnum árið 2030. Þar kom fram að samkeppnishæfni landeldis muni aukast á sama tíma og leyfi fyrir sjókvíaeldi verða torsóttari og dýrari. Tækifæri Íslands séu stór hvað þetta varðar. Við fengum Elliða Vignisson, bæjarstjóra í Ölfusi, til að segja okkur meira.

Borgarstjórn samþykkti í gær að hækka framlag til íslenskukennslu barna sem eru með annað móðurmál en íslensku. Hluti af því er að opna sérstök íslenskuver með það að markmiði að efla stöðu þeirra. Skúli Helgason, borgarfulltrúi, sagði okkur frá þessu í þættinum og einnig því hvernig borgin ætlar að verja meira fjármagni í að efla tölvukost nemenda og starfsmanna.

Í gær féllu aurskriður á hluta Seyðisfjarðarbæjar, en mikil úrkoma og hlýindi undanfarna daga er orsakavaldurinn. Veðurstofan spáir áframhaldandi hlýindum og rigningu næstu daga. Við heyrum í Kristjáni Ólafi Guðnasyni, yfirlögregluþjóni hjá Lögreglunni á Austurlandi sem segir okkur nýjustu fréttir að austan.

Þá heyrðum við í Jóhanni Hlíðar Harðarsyni í Spánarspjalli vikunnar. Hann fór þó líka með okkur yfir fréttir frá fleiri löndum og sagði okkur frá stjórnlausum vexti kókaíns í heiminum, hruni kvikmyndaiðnaðarins í Bandaríkjunum á þessu ári og svo var hann með ástarsögu frá Frakklandi úr seinni heimstyrjöldinni.

Tónlist:

Pálmi Gunnarsson - Yfir fannhvíta jörð.

Ellen Kristjánsdóttir - Minn eini jólasveinn.

Dolly Parton og Kenny Rogers - I will be home for Christmas (with bells on).

Tríóið Fjarkar - Sótthvít jól.

Jónas Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar - Hafið er svart.

Ísold og Már - Jólaósk.

Baggalútur - Jólin eru okkar (ft. Valdimar og Bríet).

Kristín Sesselja - Earthquake.

Birt

16. des. 2020

Aðgengilegt til

16. mars 2021
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hulda G. Geirsdóttir Sigmar Guðmundsson og Rúnar Róbertsson.

Þættir