Morgunútvarpið

12. nóv.- Jólastjörnur, málfar, atvinnulíf, landsleikur, líkamsímynd

Akureyrarbær er meðal þeirra bæjarfélaga sem ákváðu að setja upp jólaskreytingar fyrr en vanalega. Meðal skreytinganna eru tvær jólastjörnur sem fylgt hafa jólahaldi Akureyringa í marga áratugi. Þetta eru Amaro-jólastjarnan og KEA-jólastjarnan og eiga þessar stjörnur sérstakan sess í hjörtum bæjarbúa. Gígja Hólmgeirsdóttir hitti sagnfræðinginn Jón Hjaltason og forvitnaðist nánar um sögu þessara merkilegu jólastjarna.

Við spjölluðum um íslenskt mál við Önnu Sigríði Þráinsdóttur málfarsráðunaut og ræddum m.a. íslenskar þýðingar á heitum kaupdaga líkt og Singles day.

Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins var á línunni hjá okkur og talaði um leiðir sem samtökin vilja fara til að einfalda regluverk og lagaumhverfi til þess að gera atvinnulífið skilvirkara og öflugra og þannig betur í stakk búið til að fjölga störfum.

Stórleikur er í kvöld hjá karlalandsliðinu í knattspyrnu þegar Íslendingar mæta Ungverjum ytra. Með sigri kemst Ísland á Evrópumótið í fótbolta og Guðmundur Benediktsson, sem lýsir leiknum á Stöð 2 Sport, var á línunni hjá okkur og spáði í spilin.

Erna Kristín Stefánsdóttir er konan á bak við Ernuland. Hún er einn af vinsælli áhrifavöldum landsins, en hún leggur áherslu á jákvæða líkamsímynd og fræðir fólk í gegnum bæði fyrirlestra og samfélagsmiðla. Nú hefur hún gefið út bókina Ég vel mig þar sem ætluð er börnum og ungmennum, auk þess sem hún hefur nú sett á laggirnar hlaðvarp. Við slógum á þráðinn til Ernu og spjölluðum um hennar hjartans mál, líkamsímyndina.

Tónlist:

Hildur Vala - Komin allt of langt.

Hreimur - Lítið hús (ft. Fríða Hansen).

Durand Jones and The Indications - Young Americans.

Bubbi Morthens - Sól rís.

Chris Rea - The road to hell.

Paolo Nutini - Coming up easy.

Nýdönsk - Diskó Berlín.

JóiPé og Króli - Í átt að tunglinu.

Lloyd Cole and the Commotions - Lost weekend.

Birt

12. nóv. 2020

Aðgengilegt til

10. feb. 2021
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hulda G. Geirsdóttir Sigmar Guðmundsson og Rúnar Róbertsson.

Þættir