Endómetríósa og Unnur Ólafsdóttir lesandi vikunnar
Mars er alþjóðlegur mánuður endómetríósu á heimsvísu og vikuna 19.-25. mars nk. verður dagskrá á vegum Samtaka um endómetríósu af því tilefni.Um 200 milljónir kvenna um heim allan eru með endómetríósu og í 60% tilfella byrja verkir við fyrstu blæðingar. Á morgun standa samtökin fyrir málþingi á Grand Hótel sem ber yfirskriftina: ?Er barnið þitt með endómetríósu? og mun forseti Íslands verða viðstaddur þingið.
Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður endó í daglegu tali og lýsir sér á þann veg að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum og honum fylgir mikill sársauki. Lilja Guðmundsdóttir, ritari Samtaka um endómetríósu, kemur í þáttinn ásamt Eyrúnu Thelmu Jónsdóttir sem ætlar að deila reynslu sinni af því að vera barn og unglingur með þennan sjúkdóm sem engin veit hvað veldur og ekki er til nein lækning.
Lesandi vikunnar í þetta sinn er Unnur Ólafsdóttir veðurfræðingur, við fáum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.