Handritin til barnanna er verkefni á vegum Árnastofnunar í tilefni þess að hálf öld er liðin frá því að fyrstu handritin komu heim árið 1971. Þeir Snorri Másson og Jakob Birgisson heimsóttu á fimmta tug skóla um allt land og sögðu börnum á miðstigi grunnskólanna frá íslensku skinnhandritunum og ævintýralegri varðveislusögu þeirra. Börnin voru forvitin og spurðu margra spurninga, sumar sem gætu í fljótu bragði talist aukaatriði, eins og til dæmis, ?Hvað kostar eitt svona handrit?? Þeir Snorri og Jakob komu í þáttinn og sögðu okkur meira frá þessu verkefni og handritunum.
Á stríðsárunum voru reistir hér á landi þúsundir bragga sem eftir stríð fengu hin ýmsu hlutverk. Einn slíkur braggi er á Hólmavík og hann gegndi hlutverki samkomuhúss og gerir enn þó að á Hólmavík hafi nú risið annað og stærra félagsheimili. Bára Karlsdóttir er annar eigandi braggans í dag og Kristín Einarsdóttir hitti Báru í Bragganum, ásamt Gunnari Jóhannssyni, en bæði eiga þau miklar minningar tengdar þessu merkilega húsi.