Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki þess í matvælaframleiðslu ætla að gefa fólki í erfiðleikum matvöru, sem svarar til 40.000 máltíða, fram til jóla. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, fagnar þessari gjöf og segir að hún hafi ekki getað komið á betri tíma. Ásgerður segir að þörfin hafi aldrei verið meiri, ekki einu sinni í hruninu og bætir við að hún hafi ekki kynnst öðru eins á 26 ára ferli við hjálparstörf. Ásgerður var hjá okkur í dag og sagði frá starfsemi Fjölskylduhjálparinnar og hvernig þessi stóra gjöf nýtist.
Sauðfjárkindin er fíngerð og viðkvæm sagði í einni af útvarpstilkynningum Sauðfjárverndarinnar seint á síðustu öld. Í öðru bindi Kindasagna eru meðal annars rifjuð upp tildrög þessara tilkynninga, sagt frá afdrifum kinda í eldgosum og sauðfjárhaldi í höfuðborginni svo eitthvað sé nefnt. Við ræddum við Guðjón Ragnar Jónasson annan höfunda Kindasagna í þættinum í dag en hann sagði meðal annars að kindasögur séu sérstök grein íslenskrar sagnaskemmtunar sem á sér langa sögu og lifir enn góðu lífi.
Strandabyggð hóf nýverið þáttöku í verkefninu Brothættar byggðir hjá Byggðastofnun. Sigurður Líndal Þórisson var ráðinn verkefnisstjóri og Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, settist niður með honum og bað hann að útskýra um hvað þetta verkefni er.