Grétar Örvars föstudagsgestur og Halli og kjötfarsið
Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var tónlistarmaðurinn Grétar Örvarsson. Hann þekkja flestir auðvitað úr hljómsveitinni Stjórninni þar sem hann og Sigga Beinteins hafa sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar. Við fengum að vita hvar hann er fæddur og uppalinn og hvenær tónlistin kom inn í líf hans. Og svo sagði Grétar okkur frá föður sínum, Örvari Kristjánssyni, einum þekktasta harmónikkuleikara þjóðarinnar. Á sextíu ára ferli gaf hann út þrettán hljómplötur sem áttu miklum vinsældum að fagna. En til stendur að halda tónleika í Salnum í Kópavogi þar sem þekktustu lög Örvars verða leikin og sungin.
Í matarspjalli dagsins, líklega í síðasta sinn í bili, fjölluðum við um kjötfars. Við fengum svo mikil viðbrögð við því um daginn frá hlustendum að við getum ekki hætt og til þess að leiða okkur í gegnum lokakaflann fékk Sigurlaug Margrét til liðs við sig góðan gest, Hallgrím Ólafsson leikara, sem er mikill kjötfarsunnandi. Sem sagt Halli, Silla og kjötfarsið í dag.