• 00:07:29Aðalgeir og Ólafur - Humarsúpa, heimildarmynd
  • 00:21:36Guðný Helga Björnsd. - mjólkurframleiðsla
  • 00:41:46Hafdís Erla - buxnanotkun kvenna

Mannlegi þátturinn

Humarsúpa, Guðný og kýrnar og buxnanotkun kvenna

Heimildarmyndin Lobster Soup, eða Humarsúpa, fjallar um bræðurna Alla og Krilla, sem stofnuðu og ráku veitingastaðinn Bryggjuna á höfninni í Grindavík. Þar framreiddu þeir eina frægustu humarsúpu landsins og við borðin á staðnum voru málin krufin til mergjar. Við fengum annan bræðranna, Alla, eða Aðalgeir Jóhannsson, ásamt Ólafi Rögnvaldssyni, einum framleiðanda myndarinnar, til þess að segja okkur meira frá þeim bræðrum og humarsúpunni, sem hefur vakið það mikla athygli að hún dregur fjölda ferðamanna frá öllum heimshornum til Grindavíkur og ekki síst tvo spænska kvikmyndagerðamenn sem ákváðu að gera einmitt þessa mynd.

Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, brá sér yfir í Húnaþing vestra og hitti Guðnýju Helgu Björnsdóttur á Bessastöðum sem þar býr ásamt manni sínum, hinum þekkta hestamanni Jóhanni Magnússyni. Þau búa þar að sjálfsögðu með hesta en líka kýr og Guðný sem er fædd og uppalin á Bessastöðum hefur upplifað miklar breytingar í framleiðslu mjólkur.

Buxur eru um margt hentugur klæðnaður, sérstaklega þegar kemur að ákveðnum störfum eða vinnu. Það er þó ekki allra að klæðast buxum og enn þann dag í dag eru fjölmörg ríki sem banna konum að klæðast buxum við hin ýmsu tilefni. Sjókonur í buxum er yfirskrift Föstudagsfléttu Borgarsögusafns á föstudaginn kemur. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur mun þar fjalla um buxnanotkun íslenskra kvenna í sögulegu ljósi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkrar konur sem klæddust buxum til sjós og létu reyna á mörk samfélagsins hvað varðar kvenlega hegðun, klæðaburð og framkomu. Hafdís Erla kom í þáttinn í dag.

UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Birt

29. sept. 2020

Aðgengilegt til

29. sept. 2021
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir