• 00:10:30Stelpur filma!
  • 00:29:53Justine Vanhalst - MAKEathon
  • 00:43:38Póstkort frá Spáni - Magnús R. Einarsson

Mannlegi þátturinn

Stelpur filma, MAKEathon og póstkort frá Spáni

Námskeiðið Stelpur filma!, er nú haldið í þriðja sinn en að því koma margir reyndustu handritshöfundar og kvikmyndagerðarmenn landsins. Verkefnið er liður í því að rétta af kynjahallann sem ríkir í kvikmyndagerð á Íslandi, en margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til þess að prófa sig áfram í greininni og láta rödd sína heyrast. Stelpum úr 8. og 9. bekk í grunnskólum Reykjavíkur er boðið að taka þátt og við kíktum í Norræna húsið og töluðum við Erlu Stefánsdóttur, verkefnastjóra, Margréti Örnólfsdóttur, sem kennir handritsgerð á námskeiðinu og Matthildi og Þuríði úr Dalsskóla og Ronju Björk, Sóley Líf og Eyju úr Austurbæjarskóla.

Matís mun halda svokallað MAKEathon á fjórum stöðum á Íslandi, frá 10. til 18. september næstkomandi, þar sem áhersla verður lögð á nýtingu hliðarafurða úr sjávarútvegi. Viðburðurinn er hluti af verkefninu MAKE-it! sem er fjármagnað af Evrópusambandinu (EIT Food). Að þessu sinni mun þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn koma saman til að finna lausnir við eftirfarandi áskorun: Hvernig getum við aukið verðmæti aukahráefnis úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari?Þátttakendur fá að vinna með hráefni, bein og roð af fiski, og fá tækifæri til að „leika sér“ með það og búa til úr því frumgerð að vöru. Justine Vanhalst, verkefnastjóri hjá Matís kom í þáttinn og sagði frá.

Póstkortið sem við fengum frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag innheldur frásögn af heilögum Kristófer sem er verndardýrlingur allra ferðalanga og hann passar torgið í Alicante þar sem Magnús býr. Það var auðvitað sagt frá ástandi mála vegna kórónuvírussins, en það virðist ekki vera neitt lát á smiti í nokkrum borgum og bæjum. Það var sagt frá húsnæðismálum Spánverja sem eru með nokkrum öðrum hætti en í öðrum Evrópulöndum. Og svo sagði Magnús að lokum frá áhyggjum vegna menntamála sem hafa setið á hakanum í farsóttinni.

Umsjón: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Birt

9. sept. 2020

Aðgengilegt til

9. sept. 2021
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir