Mannlegi þátturinn

Björninn og maurinn, nýir konfektmolar og póstkort frá Spáni

Bókin,Hvíti björninn og litli maurinn, er nýkomin út. Þetta fallega ævintýri segir frá pínulitlum maur sem finnur sér skjól og hlýju hjá hvítum birni. Hvíti björninn og litli maurinn miðla mikilvægum gildum á borð við vináttu, að hjálpast að og veita aðstoð. Sagan ýtir einnig undir mál- og líkamsvitund barna í gegnum skemmtilega frásögn. Við ræddum við þýðandann Ólaf Pál Jónsson, prófessor í heimspeki við HÍ, í þættinum í dag.

Sælgætisgerðin Nói Siríus, sem er 100 ára í ár, sendi frá sér tilkynningu í gær þess efnis að fjóra nýja konfektmola verður að finna í konfektkössum þeirra frá og með næstu helgi. Innihald kassanna hefur nánast haldist óbreytt frá upphafi og ættu landsmenn að þekkja þá mola nokkuð vel, þar hafa einhverjir verið í uppáhaldi og aðrir minna. Við fengum að heyra um þessa nýju mola í þættinum og líka hvort og þá hverjir af gömlu molunum þurftu að víkja fyrir þeim nýju. Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Siríus, sagði frá nýju molunum í þættinum í dag.

Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni. Í dag sagði Magnús frá vaxandi óróa og gagnrýni á stjórnvöld á Spáni vegna flausturslegra viðbragða þeirra vegna vaxandi útbreiðslu smits vegna kórónóvírussins. Reykingabannið utandyra hefur í sumum tilvikum valdið handalögmálum. Það var líka sagt frá erfiðleikum þeirra sem vinna sjálfstætt og vinna heima. Nýjasta útspil rikistjórnar Spánar er að krefja sjálfstórnarhéruð um að loka vændishúsum þar sem þar hefur greinst töluvert um smit.

Umsjón: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Birt

26. ágúst 2020

Aðgengilegt til

26. ágúst 2021
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir