Matarspjall dagsins í dag var landshornanna á milli, Sigurlaug Margrét var í hljóðveri RÚVAK fyrir norðan, Guðrún var stödd í Efstaleitinu og Gunnar var um borð í Herjólfi á leiðinni til Eyja. Rætt var um KEA skyr og bara skyr yfir höfuð og annað norðlenskt góðgæti.
Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Björg Magnúsdóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV. Flestir ættu að þekkja hana úr Síðdegisútvarpinu á Rás 2, eða morgunþáttunum þar með Gísla Marteini, eða úr sjónvarpinu þar sem hún hefur staðið vaktina í Söngvakeppninni, Eurovision og í Kappsmáli. En færri vita að hún hefur skrifað tvær bækur og tvær sjónvarpsþáttaraðir, önnur þeirra er að fara í tökur, en hin, Ráðherrann, hefur göngu sína í sjónvarpinu á RÚV í haust. Við fengum Björgu til að rifja upp æskuna og uppvaxtarárin og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag í þættinum.