• 00:09:41Lalli töframaður - jólaplata
  • 00:26:29Ingrid Kuhlman - Jákvæð ráð og inngrip
  • 00:39:11Ása Berglind - lesandi vikunnar

Mannlegi þátturinn

Jólaplata Lalla, jákvæð ráð og Ása lesandi vikunnar

Margir kannast við Lalla töframann, sem heitir fullu nafni Lárus Blöndal Guðjónsson. Hann hefur skemmt víða og sýnt töfrabrögð, í afmælum, hjá fyrirtækjum, á stórum og litlum skemmtunum með líflegri sviðsframkomu, óvæntum uppátækjum og að sjálfsögðu talsvert mögnuðum töfrabrögðum. En færri vita að hann er ákaflega mikið jólabörn, er til dæmis með þrjú jólahúðflúr og nú er hann að safna fyrir útgáfu jólaplötu á Karolinafund. Já, þið lásuð rétt, það er 11.maí og Lalli eyddi sumardeginum fyrsta í að semja texta fyrir jólalag. Við fengum hann til að koma okkur í jólaskap og segja okkur frá þessu verkefni. Kannski er það það sem við þurfum á að halda á þessum skrýtnu tímum, að komast í jólaskap.

Samkvæmt nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup hafa um 38% landsmanna frekar eða mjög miklar áhyggjur af heilsufarslegum afleiðingum veirunnar á meðan tæp 78% landsmanna hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum hennar. Kvíði og áhyggjur eru eðlileg viðbrögð við þeim fáheyrðu aðstæðum sem við erum að upplifa í dag. Þegar áhyggjurnar verða hins vegar óraunhæfar eða viðvarandi geta þær valdið vanlíðan og haft neikvæð áhrif á daglegt líf. Ingrid Kuhlman kom í þáttinn og sagði okkur frá 15 ráðum og þremur jákvæðum inngripum, sem geta hjálpað.

Lesandi vikunnar var Ása Berglind Hjálmarsdóttir tónlistarkona,viðburða og verkefnisstjóri,blaðamaður hjá Hafnarfréttum og nú stofnandi fyrirtækis sem nefnist Töfrandi Brúðkaup. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Birt

11. maí 2020

Aðgengilegt til

11. maí 2021
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir